Staðgöngumóðir kemur í veg fyrir að barnið fari úr landi

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Útlend hjón, sem höfðu greitt staðgöngumóður fyrir að ganga með barn fyrir sig í Taílandi, segja að nú neiti staðgöngumóðirin þeim um að yfirgefa landið með barnið.

Bandaríkjamaðurinn Gordon Lake og eignmaður hans, Spánverjinn Manuel Valero, greindu frá því í dag að staðgöngumóðirin neiti nú að leyfa þeim að yfirgefa landið með dóttur þeirra, Carmen. Ástæðan fyrir neituninni sé sú að þeir eru samkynhneigðir.

Hjónin, sem eiga son sem staðgöngumóðir fæddi í Indlandi, hafa ekki fengið nauðsynleg skjöl undirrituð af staðgöngumóðurinni svo þeir geti farið með dóttur sína, sem er fædd í Taílandi úr landi. Þeir segjast ekki fara án dóttur sinnar. Staðgöngumóðirin segir að ástæðan fyrir neituninni tengist ekki kynhneigð þeirra.

Lake, sem býr ásamt eiginmanni sínum í Valencia á Spáni, grátbað staðgöngumóðurina um að skipta um skoðun í sjónvarpsviðtali í Bangkok í morgun. „Hún er dóttir okkar og við verðum hér eins lengi og hún þarf á okkur að halda. Við förum ekki frá Taílandi án dóttur okkar,“ sagði Lake í viðtali við Channel 3.

Hann segir að þeir hafi viljað leysa málið friðsamlega og að staðgöngumóðirin fengi að fylgjast með lífi fjölskyldunnar. 

Í nokkur ár hafa fjölmargar konur tekið að sér staðgöngumæðrun í Taílandi en í febrúar var lögum breytt þar í landi í kjölfar nokkur hneykslismál þeim tengdum. Með breytingunum geta útlendingar nýtt sér þjónustu staðgöngumæðra í landinu. 

Meðal mála sem hafa komið upp er áströlsk hjón yfirgáfu barn sitt sem fæddist með Downs-heilkenni en taílensk staðgöngumóðir gekk með barnið. Þau höfðu hins vegar tvíburasystur hans með sér til Ástralíu en ekkert amaði að henni.

Stuttu síðar kom upp annað mál þar sem níu börn fundust í íbúð. Japanskur faðir þeirra nýtti sér þjónustu taílenskra staðgöngumæðra. Þegar þessi mál komu upp gekk konan sem nú um ræðir með Carmen. Eftir fæðingu stúlkunnar afhenti hún Lake og Valero barnið en mætti síðan ekki á fund þeirra í bandaríska sendiráðinu þar sem hún átti að skrifa undir skjöl varðandi litlu stúlkuna. 

Hún sagði í viðtali við Channel 3 í síðustu viku að það skipti ekki máli að Lake og Valero væru hommar en hún hefði áhyggjur af barninu og að hún gæti lent í mansali án þess að útskýra þann ótta sinn frekar.

Fundu 9 börn í íbúð

mbl.is