Hljóp 4.988 kílómetra á 40 dögum

Ashprihanal Aalto kemur í mark.
Ashprihanal Aalto kemur í mark. Ljósmynd/3100.srichinmoyraces.org/

Finninn Ashprihanal Aalto sló heimsmet í lengsta götuhlaupi heims í New York í Bandaríkjunum seinasta föstudag. Hann gerði sér lítið fyrir og hljóp 3.100 mílur, um 4.988 kílómetra, á 40 dögum, 9 klukkustundum, 6 mínutum og 21 sekúndu.

Bætti hann þar með sitt fyrra heimsmet um 23 klukkutíma og 10 mínútur.

Um er að ræða árlegt hlaup sem Sri Chinmoy samtökin standa fyrir, en þetta er í þrettánda sinn sem Aalto tekur þátt og í áttunda sinn sem hann stendur uppi sem sigurvegari.

Aalto hljóp að meðaltali um 123,6 kílómetra á hverjum degi, sem er rúmlega þrjú maraþon, í fjörutíu daga. Keppendur lögðu af stað 14. júní síðastliðinn og kom Finninn í mark seinasta föstudag, 24. júlí.

Keppendur verða að ljúka hlaupinu fyrir 4. ágúst, en til þess að gera það þurfa þeir að hlaupa rétt tæplega 100 kílómetra á hverjum degi, 52 daga í röð.

Að þessu sinni voru tólf kepp­end­ur, tíu karl­ar og tvær kon­ur, skráðir til leiks. Þeir voru vand­lega vald­ir með fyrri ár­ang­ur í erfiðum götu­hlaup­um að leiðarljósi. Þetta er í nítjánda sinn sem hlaupið er haldið en aðeins 37 hlaupurum hefur tekist að ljúka því innan tímamarka.

mbl.is