Aftur líf í Útey

Hann bjargaði lífi konu sem hafði verið skotin margsinnis en missti tvo nána vini, daginn sem hryðjuverkin voru framin.

Nú, fjórum árum síðar, hyggst hinn 22 ára gamli Ole Martin Juul Slyngstadli endurheimta Útey úr greipum þeirrar martraðar sem Anders Behring Breivik skóp er hann myrti 69 manns á eynni hinn 22. júlí 2011.

Ungliðahreyfing Verkamannaflokksins í Noregi snýr aftur til Úteyjar um helgina. Verða þetta fyrstu sumarbúðir hreyfingarinnar í eynni frá blóðbaðinu 2011 og telja sumir það fullsnemmt og jafnvel óvirðingu við hina látnu.

Á eynni þann dag voru 600 ungmenni en Slyngstadli verður í hópi yfir 1.000 slíkra um helgina. „Fyrir mér er mikilvægt að endurheimta eyjuna,“ segir Slyngstadli í viðtali við AFP sem lýsir honum sem glaðlegum og orkumiklum ungum manni, þrátt fyrir þann hrylling sem hann hefur mátt upplifa.

Einblínir á jákvæðar minningar

Skotárás Breivík á eyjunni stóð yfir í klukkutíma og 13 mínútur. Markmið hans var að myrða framtíðarleiðtoga Verkamannaflokksins sem hann kenndi um aukin umsvif fjölmenningar. Stuttu áður hafði hann myrt átta manns með sprengju sem sprakk nálægt höfuðstöðvum ríkisstjórnarinnar í Osló um, 40 kílómetrum í burtu.

„Það skilur eftir merki. Þú veist að það var einhver sem reyndi að drepa þig af þeirri einu ástæðu að þú trúir á fjölmenningarsamfélag, að þú trúir á sérstaka stefnu í stjórnmálum,“ segir Slyngstadli.

„Áður fyrr var ég mjög virkur í stjórnmálum. En nú brennur eldurinn í mér enn sterkar og ég er enn virkari en áður.“

Slyngstadli er laganemi en jafnframt borgarfulltrúi í Stavanger og hann undirbýr sig nú fyrir kosningar í september. Hann var meðal þeirra hundruða sjálfboðaliða sem hafa gert upp byggingarnar á Úteyju svo þær væru tilbúnar fyrir helgina. Hann hefur því snúið aftur til eyjunnar margoft frá því að árásirnar áttu sér stað.

„Það eru auðvitað ýmsar tilfinningar sem tengjast staðnum en ég einblíni á þær jákvæðu,“ segir hann.

„Ég hef aldrei séð neinn hlaupa jafn hratt „

Daginn sem Breivik réðist á ungmennin á Úteyju bjargaði Slyngstadli lífi Inu Libak sem hafði verið skotin þrisvar sinnum. Hann bar hana á örmum sér, faldi hana í háu graslendi og stöðvaði blæðinguna með hjálp annarra.

„Ég hef aldrei séð neinn hlaupa jafn hratt og vera eins sterkan,“ sagði Libak síðar um Slyngstadli, þegar hún lýsti björguninni við réttarhöldin yfir Breivik. Slyngstadli man enn eftir beiskri lyktinni af byssupúðrinu, hvernig Breivik gekk aðeins fáeinum metrum frá felustað þeirra og símtölum til foreldra sinna. „Hvað sem gerist elska ég ykkur,“ minnist hann þess að hafa sagt.

Hann og Ina komust loks af eyjunni á báti, hún í alvarlegu ástandi og hann í áfalli en bæði á lífi. Meðal þeira tuga líflausu líkama sem eftir lágu voru tveir góðir vinir Slyngstadli sem hann hafði deilt tjaldi með.

Breivik hlaut 21 árs fangelsisdóm sem getur verið framlengdur eins lengi og hann er talinn hættulegur samfélaginu. Slyngstadli hefur lítið um hann að segja.

„Afhverju ætti ég að hugsa um hann? Ég skil að sumt fólk sé ennþá reitt en ég hef betri hluti að hugsa um.“

Líkt og Slyngstadli reyna flestir í Noregi að gleyma Breivik en sýna fórnarlömbum hans virðingu á sama tíma. Ef hann ætlaði sér að þurrka út næstu kynslóð Verkamannaflokksins mistókst honum ætlunarverk sitt því meðlimum í ungliðafylkingunni hefur fjölgað um 50 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert