„Hann lifir, hann andar“

AFP

Ættingjar fórnarlamba James Holmes brugðust margir illa við í gær þegar kviðdómur greindi frá því að fjöldamorðinginn myndi sleppa við dauðarefsingu. Holmes var í gær dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Saksóknari í málinu, George Brauchler, var einnig ósáttur og átti hann augljóslega erfitt með að lesa upp nöfn allra fórnarlamba Holmes á blaðamannafundi í gær. Þar bað hann jafnframt fjölskyldur fórnarlambanna afsökunar.

Kviðdómur, sem samanstóð af níu konum og þremur körlum, hafnaði því í síðasta mánuði að Holmes hafði verið löglega geðveikur þegar hann myrti tólf manns í kvikmyndahúsi í Colorado í júlí 2012 og særði 70. Holmes var dæmdur sekur í síðasta mánuði en verjendur hans höfðu reynt að halda því fram að hann hefði ekki verið heill á geði þegar hann framdi árásina. Saksóknarar kröfðust þess við réttarhöldin að Holmes yrði tekinn af lífi.

Í gær var það síðan tilkynnt að Holmes fengi að lifa en yrði í fangelsi til æviloka. Til að dæma mann til dauða í Colorado þarf kviðdómur að komast að einróma niðurstöðu og tókst það ekki í gær.

Robert Sullivan missti sex ára gamalt barnabarn sitt, Veronicu Moser-Sullivan, í árásinni. Hann átti erfitt með að skilja ákvörðun kviðdómsins í gær.

„Þetta gengur ekki upp og ég trúi þessu ekki,“ sagði hann. „Hann lifir, hann andar og ástvinir okkar eru farnir.“

Ekki voru gefnar upp opinberar upplýsingar um hvernig ákvörðun kviðdómsins skiptist. Kviðdómari sem kom aðeins fram undir nafninu „kviðdómari 17“ í samtali við fjölmiðla greindi frá því í gær að kviðdómurinn hefði komist að niðurstöðunni eftir að einn kviðdómara neitaði að samþykkja dauðarefsingu.

Saksóknarinn Brauchler sagðist í gær virða ákvörðun kviðdómsins og sagði að fólkið hefði staðið sig vel í réttarhöldunum sem tóku marga mánuði.

Talsmaður Holmes-fjölskyldunnar sagði í yfirlýsingu að fjölskyldan ætlaði ekki að tjá sig um ákvörðun kviðdómsins en „væri miður sín að þetta hefði gerst og bæðist afsökunar á því að fórnarlömbin og fjölskyldurnar skyldu þurfa að missa svona mikið“.

Sandy Phillips missti dóttur sína, Jessicu Ghawi, í árásinni. Hún mætti í dómsalinn hvern einasta dag sem réttarhöldin stóðu utan einn. Hún sagði í samtali við NBC að fjölskyldur fórnarlambanna hefðu stutt hver aðra í réttarhöldunum, sem tóku 65 daga í heild.

„Líf okkar verður aldrei eins og tilhugsunin um að þetta skrímsli fái að hitta foreldra sína og fá póst er erfið en svona er þetta,“ sagði hún. „Eina sem við getum gert, sem hópur, sem fjölskylda, er að halda áfram að styðja hvert annað.“

Robert og Sue Sullivan misstu sex ára gamalt barnabarn sitt …
Robert og Sue Sullivan misstu sex ára gamalt barnabarn sitt í árásinni. AFP
Saksóknarinn George Brauchler bað ættingja fórnarlambanna afsökunar í gær.
Saksóknarinn George Brauchler bað ættingja fórnarlambanna afsökunar í gær. AFP
AFP
James Holmes í dómssal stuttu eftir morðin.
James Holmes í dómssal stuttu eftir morðin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert