„Lífsháttum okkar er ógnað“

Philip Hammond.
Philip Hammond. AFP

Utanríkisráðherra Bretlands segir stríðan straum afrískra flóttamanna ógna lífsgæðum og samfélagsskipulagi Bretlands og annarra Evrópuríkja. Ráðherrann, Philip Hammond, lét orðin falla í opinberri heimsókn til Singapúr í dag. Þar vakti hann m.a. máls á þeim vanda sem hefði skapast við Ermarsundið, þar sem fjölmargir flóttamenn reyna í örvæntingu að komast yfir til Bretlands.

Hann gagnrýndi lög og reglur Evrópusambandsins og sagði þær koma í veg fyrir að unnt væri að senda flóttamenn aftur til síns heima. „Við þurfum að geta leyst vandann endanlega með því að senda þá sem ekki eiga rétt á hæli aftur til síns heima,“ sagði Hammond. „Á meðan Evrópusambandslögin eru með þeim hætti sem nú er þurfa margir flóttamannanna aðeins rétt að stíga fæti á evrópska jörð og þá er ómögulegt að senda þá aftur til baka.“

Hann sagði Evrópu ekki geta varið sig eins og staðan væri núna. „Lífsháttum okkar er ógnað er við þurfum að taka að okkur milljónir afrískra flóttamanna.“

Varðskipið Týr hefur m.a. sinnt landamæragæslu fyrir Frontex við strendur ...
Varðskipið Týr hefur m.a. sinnt landamæragæslu fyrir Frontex við strendur Grikklands og Ítalíu undanfarin misseri. Ljósmynd/Landhelgisgæslan.

Ummælin koma í kjölfar viðvarana frá gríska forsætisráðherranum Alexis Tsipras um að Grikkland ráði ekki lengur við stríðan straum þeirra sem koma yfir Miðjarðarhafið frá Afríku og Mið-Austurlöndum. Í júlí komu 50 þúsund flóttamenn til Evrópu í gegnum Grikkland, samanborið við 41.700 manns allt síðasta ár samkvæmt tölum frá evrópsku landamæragæslunni Frontex.

Frétt The Telegraph

mbl.is