Útkall Corbyns setti vefsíðu Verkamannaflokksins á hliðina

Jeremy Corbyn.
Jeremy Corbyn. AFP

Kjörstjórn breska Verkamannaflokksins þurfti að lengja frestinn til þess að skrá sig sem kjósanda í leiðtogakjörinu sem hefst á fimmtudaginn um þrjár klukkustundir eftir að tölvukerfið hrundi vegna mikillar aðsóknar.

Samkvæmt The Telegraph var það hvatning eins frambjóðandans, Jeremys Corbyns, til stuðningsmanna sinna í gegnum samfélagsmiðla sem leiddi til þess að vefsíðan fór á hliðina. Var fresturinn því lengdur frá hádegi í dag til klukkan 15 eftir að fjöldi kvartana bárust flokknum.

Corbyn þykir sigurstranglegastur á meðal sérfræðinga og veðbanka. Stuðullinn á að Corbyn fari með sigur af hólmi er 2/5 hjá Bet365. Næst á eftir honum kemur Andy Burnham með 7/2. Í skoðanakönnun sem framkvæmd var á meðal kjósenda leiðtogakjörinu á dögunum 6.-10. ágúst er Corbyn með 53% fylgi, Burnham með 21% og Yvette Cooper með 18%.

Kosningin hefst þann 14. ágúst og stendur til 10. september. Úrslitin verða svo tilkynnt þann 12. september á sérstökum landsfundi. 

Kosið verður í fyrsta skiptið eftir nýju kosningakerfi. Í gamla kerfinu vógu atkvæði þingmanna flokksins (þjóðþings og Evrópuþings) 1/3, atkvæði almennra flokksmanna 1/3 og atkvæði meðlima verkalýðsfélaganna sem eiga aðild að Verkamannaflokknum 1/3.

Með nýju reglunum hafa öll atkvæði sama vægi og meðlimir verkalýðsfélaga verða að skrá sig í flokkinn til þess að geta kosið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert