Síðasti ebólusjúklingurinn úskrifaður

Það hefur reynst erfitt að hefta úbreiðslu sjúkdómsins í Gíneu, …
Það hefur reynst erfitt að hefta úbreiðslu sjúkdómsins í Gíneu, þar sem faraldurinn braust fyrst út. AFP

Síðasti þekkti ebólusjúklingurinn í Sierra Leone var útskrifaður af sjúkrahúsi í borginni Makeni í dag. Ernest Bai Koroma, forseti landsins, sagði að útskrift viðkomandi markaði upphafið á endinum fyrir sjúkdóminn í landinu.

Ný tilfelli ebólu hafa ekki verið tilkynnt í Sierra Leone í tvær vikur en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni má lýsa ríki laust við ebólu að liðnum 42 dögum frá því að síðasti þekkti sjúklingurinn hefur reynst laus við veiruna í tveimur rannsóknum.

Sierra Leone og Líbería bíða þess nú að verða lýst ebólulaus, en fólk er enn að smitast af sjúkdómnum í Gíneu.

Sjúklingurinn sem var útskrifaður í dag, hin 34 ára Adama Sankoh, sagði að héðan af yrði hún helsti boðberi þeirra skilaboða að jafnvel þótt ebólan væri á undanhaldi, þyrfti fólk að vera á varðbergi. Þá biðlaði hún til stjórnvalda um að gleyma ekki þeim sem hefðu lifað sjúkdóminn, en staða þeirra væri bág fjárhagslega.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að með yfirstandandi aðgerðum verði mögulega hægt að binda enda á faraldurinn fyrir árslok. Eitt ógreint tilfelli geti hins vegar blásið í hann lífi á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert