Þjóðernishyggja í stað hefðbundinna flokka

Verður Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, kannski næsti forsætisráðherra Svíþjóðar?
Verður Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, kannski næsti forsætisráðherra Svíþjóðar? AFP

Þjóðernisflokkurinn Svíþjóðardemókratar mælist þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn í Svíþjóð  í nýrri könnun sem TV4 birti í dag. Þykir þetta benda til þess að kjósendur eru að yfirgefa hefðbundna stjórnálaflokka og færa sig yfir í þjóðernishyggju. Í síðustu viku var birt könnun sem sýndi Svíþjóðardemókrata sem stærsta stjórnmálaflokk Svíþjóðar.

Samkvæmt könnun TV4 segjast 19,4% aðspurðra styðja Svíþjóðardemókrata sem meðal annars eru andsnúnir innflytjendum. Fylgið kemur meðal annars frá félögum í verkalýðsfélögum og íbúum í norðurhluta Svíþjóðar.

Hægri flokkurinn, Moderatarna, er með 23,3% fylgi í könnuninni og missir 1,7% atkvæða frá því í júní er TV4 birti síðast könnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Fylgið sem flokkurinn missir fer að töluverðu leyti yfir til Svíþjóðardemókrata en það eru einkum karlar sem hafa skipt um skoðun. 

En jafnaðarmenn eru enn með mest fylgi í skoðanakönnun TV4 eða 25,1%. Þrátt fyrir það er þetta minnsta fylgi flokksins í skoðanakönnum TV4 frá því í janúar 2012. 

Könnunin, sem er unnin af Novus, fyrir TV4, sýnir að það eru yngri kjósendur og verkamenn sem einkum eru að yfirgefa flokk Stefans Löfvens, forsætisráðherra. Það fólk fer einkum til Græningja, Vinstri flokksins og Svíþjóðardemókrata.

Í könnun sem YouGov vann fyrir sænska dagblaðið Metro í síðustu viku mældust Svíþjóðardemókratar með 25,2% fylgi sem þýðir að flokkurinn, með Jimmie Åkesson í forystuhlutverki, er stærsti flokkurinn í Svíþjóð í fyrsta skipti.

En þrátt fyrir að Svíþjóðardemókratar séu aðeins þriðji stærsti flokkurinn í Svíþjóð þá er ljóst að flokkurinn nýtur meiri vinsælda en áður. Flokkurinn, sem hefur gagnrýnt innflytjendastefnu sænskra stjórnvalda harðlega, hefur aukið fylgi sitt jafnt og þétt frá því flokkurinn fékk 12,9% í þingkosningum í september í fyrra.

Samkvæmt könnun Novus þá er flokkurinn vinsælli á meðal karla en kvenna og munar miklu þar á milli, 24,5% karla en 14,5% kvenna segjast styðja flokkinn.

Frétt The Local 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert