Hagvöxtur og loftslagsaðgerðir ekki andstæður

Aðgerðir í loftslagsmálum munu meðal annars skapa störf við nýja …
Aðgerðir í loftslagsmálum munu meðal annars skapa störf við nýja orkugjafa eins og sólarorku. AFP

Rangt er að stilla hagvexti og aðgerðum til að bregðast við loftslagsbreytingum upp sem andstæðum pólum og það gæti skaðað möguleikann á því að samkomulag náist um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í París í vetur. Þetta segir breski loftslagshagfræðingurinn Nicholas Stern, lávarður.

Ýmis samtök fyrirtækja og stjórnmálamenn víða um heim hafa haldið því fram að aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum séu of kostnaðarsamar. Andrzej Duda, forsætisráðherra Póllands, sagði meðal annars nýlega að áform Evrópusambandsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% á næstu árum væru dýrkeypt og slæm fyrir Pólland.

Stern, sem er forstöðumaður Grantham-rannsóknarstofnunarinnar um loftslagsbreytingar og umhverfið, sagði hópi sendiherra í París að þetta væri villandi tvískipting, að stilla efnahagslegum vexti upp á móti loftslagsaðgerðum.

„Að draga upp þá mynd að þetta tvennt stangist á er að misskilja efnahagslega þróun og tækifærin sem við höfum núna í að færa okkur í átt að lágkolefnishagkerfi. Að láta þannig skapar sundrungu og býr til ímyndaða keppni sem getur raunverulega skaðað möguleikana á að ná samkomulagi,“ sagði Stern.

Pólsk stjórnvöld hafa látið í veðri vaka að þau segi sig frá loftslagsmarkmiðum ESB en Duda hefur sagt að þar sem að landið eigi mikinn kolaforða þá séu það ekki hagsmunir þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Frétt The Guardian af orðum Stern lávarðar

mbl.is

Bloggað um fréttina