Hótuðu að draga tennur úr honum

Farandverkamaðurinn Zaw Lin greindi frá meintum pyntingum lögreglu við aðalmeðferð …
Farandverkamaðurinn Zaw Lin greindi frá meintum pyntingum lögreglu við aðalmeðferð málsins í gær. AFP

Farandverkamaðurinn Zaw Lin var ekki aðeins pyntaður með því að plastpokum væri vafið um höfuð hans, heldur var hann einnig tekinn úr öllum fötunum, barinn, honum hótað að tennurnar yrðu dregnar úr honum og honum yrði drekkt í sjónum.

Aðalmeðferð í máli farandverkamananna tveggja, Lin og Wei Phyo, sem báðir eru 22 ára og ákærðir fyrir að bera ábyrgð á dauða bresku ferðamannanna Hönnuh Witheridge og David Miller, stendur yfir og greindi Lin frá þessu fyrir dómi í gær.

Móðir hans var í réttarsalnum og átti erfitt með að hlusta á framburð sonar síns. Stóð hún upp, yfirgaf réttarsalinn og kastaði upp fyrir utan eftir að hafa hlustað á hann lýsa pyntingunum.

Frétt mbl.is: Kastaði upp við frásögn sonarins

Mennirnir játuðu morðin en drógu játningar til baka nokkru síðar eftir að þeim voru úthlutaðir lögmenn. Nú segja þeir að lögregla hafi pyntað þá til að fá fram játningu í málinu. Fólkið fannst látið á strönd á eyjunni Koh Tao á Tælandi 14. september á síðasta ári.

Við réttarhöldin í gær kom fram að ef ásakanir mannanna í garð lögreglu um meint ofbeldi reynist réttar hafi verið um pyntingar að ræða. Nokkrir lögfræðingar sem hafa sérhæft sig í mannréttindum sátu aðalmeðferðina í gær.

Foreldrar Davids Miller voru einnig viðstaddir og ræddu þau við Sky-sjónvarsstöðina eftir á. Þau sögðust vera ánægð að fá tækifæri til að hlusta á framburð mannanna frá fyrstu hendi.

„Við ræddum við David aðeins sex klukkustundum fyrir andlát hans og hann var svo ánægður. Hann sagði að hann elskaði þennan stað, hann væri svo fallegur og hann var ánægður með ferðina,“ sagði móðir hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert