Birti mynd af eiturlyfjabaróninum á Twitter

Joaquin Guzman Loera, eða öðru nafni
Joaquin Guzman Loera, eða öðru nafni "el Chapo Guzman". AFP

Eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman er í felum á Costa Rica ef marka má mynd sem að sonur hans birti á Twitter. The Independent greinir frá þessu.

Á mánudaginn birti Jesus Alfredo Guzman Salazar mynd af sér og manni sem virðist vera faðir hans á Twitter. Það lítur út fyrir að sonurinn hafi hinsvegar gleymt því að á Twitter er auðveldlega hægt að sjá hvar hver mynd er tekin en hún hefur ekki enn verið fjarlægð af miðlinum. 

Sonur Guzman er 29 ára gamall og tjáir sig reglulega um föður sinn á samfélagsmiðlum. Á myndinni sem tekin var í Costa Rica má sjá Salazar sitja við borð veitingastað ásamt tveimur mönnum. Búið er að hylja andlit mannanna með teiknimyndum. Vinstra megin við Salazar situr hinsvegar maður sem líkist Guzman.

Tístið hefur verið endurbirt næstum því 1.500 sinnum og sýnir augljóslega að myndin sé tekin í Costa Rica. Að sögn yfirvalda þar í landi er verið að rannsaka færsluna sem eru fyrstu sönnunargögnin sem benda til þess að Guzman sé í Costa Rica.

Guzm­an, sem stýrði Sinaloa-glæpa­sam­tök­un­um, var álit­inn hættu­leg­asti glæpa­maður Mexí­kó. Hann hefur einnig verið eftirlýstur í Bandaríkjunum. Hann er talinn vera ríkasti og valdamesti eiturlyfjasali veraldar. Hann slapp úr Altiplano fangelsinu í Mexíkó í júlí og þótti flóttinn hljóma eins og eitthvað úr kvikmynd.

Mexíkósk stjórnvöld hafa boðið 3,8 milljónir dala, sem jafngildir um 494 milljónum króna, að launum fyrir upplýsingar sem geti leitt til handtöku Guzman. Í síðustu viku buðu bandarísk yfirvöld fimm milljónir dala í verðlaun fyrir upplýsingar um Guzman og stofnuðu sérstaka símalínu fyrir þá sem vilja gefa upp upplýsingar um eiturlyfjabaróninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert