Afturkalla viðvaranir

Samkvæmt Guardian hefur flóðbylgjuviðvörun sem gefin var út fyrir strandlengju Chile í kjölfar skjálftans í gær verið afturkölluð nema fyrir Atacama og Coquimbo. 4,7 stiga skjálfti varð nærri borginni General Santos á Mindanao á Filippseyjum fyrir rúmum klukkutíma, samkvæmt viðvörunarkerfi Google, en 15 eftirskjálftar hafa mælst í kjölfar stóra skjálftans í Chile.

Svo virðist sem dregið hafi úr áhyggjum vegna mögulegrar flóðbylgju í kjölfar skjálftans í gær, en viðvörunum sem gefnar voru út fyrir Hawaii og hluta strandlengju Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur verið breytt í „ráðleggingar“.

Samkvæmt Associated Press benda fyrirliggjandi gögn ekki til þess að meiriháttar flóðbylgja muni skella á ströndum Hawaii, en hins vegar sé mögulegt að fólki nærri eða í sjónum stafi ógn af hættulegum straumum og/eða sjávarstöðubreytingum. Áþekkar ráðleggingar hafa verið gefnar út fyrir hluta Kaliforníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert