Meiri hætta af öfga-þjóðernissinnum

Öfgasinninn Anders Behring Breivik drap 77 á einum degi. Flest …
Öfgasinninn Anders Behring Breivik drap 77 á einum degi. Flest fórnarlamba hans voru ungmenni. AFP

Norska öryggislögreglan segir að mesta hættan af fjölgun flóttamanna í landinu sé sú að   öfgasinnaðir þjóðernissinnar grípi til ofbeldis. Það sé miklu meiri ógn heldur hættan á að að öfgasinnaðir íslamistar laumi sér í raðir flóttafólks.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá PST. Þar segir að PST hafi ekki áhyggjur af því að öfgasinnaðir íslamistar laumi sér inn í landið í skjóli hælisleitenda. Aukinn fjöldi hælisleitenda muni fyrst og fremst valda hættu vegna öfgasinnaðra þjóðernissinna í Noregi og hver viðbrögð þeirra verði.

Norðmenn hafa ekki enn jafnað sig á voðaverkum þjóðernisöfgasinnans Anders Behring Breivik sem drap 77 í júlí 2011. Ástæðan fyrir voðaverkinu var andstaða hans við fjölmenningarstefnu og það sem hann kallaði innrás múslíma.

Aldrei hefur verið gerð árás af hálfu öfgafullra íslamista í Noregi. Þar eins og víðar annars staðar hafa þjóðernissinnar látið í veðri vaka á samfélagsmiðlum að liðsmenn Ríkis íslams og annarra hryðjuverkasamtaka muni lauma sér inn í landið verði tekið á móti flóttafólki.

Mest hætta af þeim sem hafa tekið upp öfgaskoðanir í Noregi

Hættan sem stafar af öfgafullum íslamistum kemur fyrst og fremst frá fólki sem er fætt í Noregi eða hefur alist þar upp sem hefur tekið upp öfgaskoðanir í heimalandinu - Noregi, segir í tilkynningu PST.

Alls sóttu átta þúsund um hæli í Noregi á fyrstu átta mánuðum ársins. Fjórðungur þeirra eru Sýrlendingar. Gert er ráð fyrir að hælisleitendurnir verði alls 20 þúsund talsins í ár.

Tilkynning PST

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert