Sundrung á meðal leiðtoga heimsins

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í New York hefur leitt í ljós sundrung á meðal leiðtoga helstu ríkja heimsins. Leiðtogar Bandaríkjanna og Frakklands hafa lagt áherslu á að Assad Sýrlandsforseti þurfi að víkja á meðan Rússar fullyrða að það væru „gríðarleg mistök“ að vinna ekki með honum í baráttunni gegn Íslamska ríkinu.

Bandaríkjamenn og Rússar hafa þó gefið í skyn að þeir séu reiðubúnir að slaka á kröfum sínum. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði þannig að hann væri reiðubúinn til samvinnu með öllum þjóðum á sama tíma og Vladimír Pútín forseti Rússlands kallaði eftir víðtæku bandalagi. Saman munu þeir funda í New York síðar, samkvæmt umfjöllun BBC.

„Blóðsúthellingar og fjöldadráp“

Obama sagði að nauðsynlegt væri fyrir heimsveldin að miðla málum sínum til að binda enda á átökin í Sýrlandi, sem hafa orðið meira en 200 þúsund manns að bana og neytt fjórar milljónir manna til að flýja landið.

„Varanlegum stöðugleika verður aðeins náð þegar almenningur í Sýrlandi nær samkomulagi um að lifa saman í friði og sátt,“ sagði Obama í ræðu sinni. „Bandaríkin eru reiðubúin til að vinna með hvaða þjóð sem er, þar á meðal Rússum og Írönum, að því að leysa deiluna. En við þurfum að horfast í augu við það að eftir svo miklar blóðsúthellingar og fjöldadráp verður ekki snúið aftur til sama ástands og ríkti fyrir stríð.“

Sjá frétt mbl.is: Vill ekki nýtt kalt stríð

Á eftir Obama tók Pútín til máls. „Það væru gríðarleg mistök að neita samvinnu með sýrlensku ríkisstjórninni og herliði hennar, sem berjast fræknar gegn hryðjuverkum augliti til auglitis.“

Þá kallaði hann eftir „víðtæku bandalagi gegn hryðjuverkum“ til að berjast gegn Íslamska ríkinu og líkti baráttunni við það þegar alþjóðleg öfl tóku höndum saman til að berjast gegn Þýskalandi nasismans í heimsstyrjöldinni síðari.

Sendifulltrúi Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, Vitaly Churkin, tilkynnti svo að Pútín hefði lagt fram tillögu til Öryggisráðs SÞ um alþjóðlegar hernaðaraðgerðir gegn Íslamska ríkinu. Sagði hann blaðamönnum á fundi í höfuðstöðvum SÞ að ríkisstjórn Assads og bandamenn þeirra í Íran ættu að fá að taka þátt í aðgerðum gegn herskáu íslamistunum.

Fimm ríki nauðsynleg til lausnar vandans

Leiðtogar heimsveldanna tveggja hafa lengi deilt um Sýrland. Bandaríkin vilja ekki að forsetinn Bashar al-Assad verði áfram við völd á meðan Rússar hafa verið dyggir stuðningsmenn hans og hafa nú undanfarið aukið hernaðarlegan stuðning við ríkisstjórn landsins.

Ban Ki-moon Framkvæmdastjóri SÞ sagði að fimm ríki væru nauðsynleg til að finna lausn á vandanum í Sýrlandi, Rússland, Bandaríkin, Sádi-Arabía, Tyrkland og Íran. Ef þau gætu ekki fundið málamiðlanir þá væri borin von um breytingar í landinu. Á sama tíma hefur ógn íslamista og landflótti Sýrlendinga til Evrópu orðið til að auka enn frekar þörfina á að bundinn sé endi á borgarastyrjöldina.

Breiðfylking gegn öfgum og ofbeldi

Forseti Írans, Hassan Rouhani, kallaði eftir sameinaðri fylkingu til að berjast gegn öfgamönnum í Mið-Austurlöndum og sagði hann að stjórnvöld Írans væru tilbúin að „koma á lýðræði“ í Sýrlandi og Jemen.

Var ræðan fyrsta erindið sem hann flytur fyrir allsherjarþinginu síðan hinum sögulega kjarnorkusamningi var náð í lok sumars. Bauð hann „öllum heiminum og sérstaklega löndunum í mínum heimshluta, að mynda sameiginlega og yfirgripsmikla aðgerðaáætlun fyrir breiðfylkingu gegn öfgum og ofbeldi“.

Ban Ki-moon sagði að samvinna fimm landa væri nauðsynleg til ...
Ban Ki-moon sagði að samvinna fimm landa væri nauðsynleg til að finna lausn á vanda Sýrlands. AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP
Hassan Rouhani flutti erindi í fyrsta sinn frá því kjarnorkusamningurinn ...
Hassan Rouhani flutti erindi í fyrsta sinn frá því kjarnorkusamningurinn náðist. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Ertu komin í saumaskap ?
Nýjar og notaðar saumavélar í úrvali. Nýjar vélar með 3 ára ábyrgð. Notaðar véla...
Bækur um ættfræði, byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
Til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasö...
Toyota Corolla 2005
Til sölu, ekinn um 77.000 km. Þokkalegt eintak. Sumar og vetrardekk. Næsta skoðu...
Skákborð vandað palesander
til sölu vandað skákborð. kr.45 þúsund.uppl.8691204...