Frysta eigur breskra hryðjuverkamanna

Sally-Anne Jones. Hún hefur birt þessar myndir af sér á …
Sally-Anne Jones. Hún hefur birt þessar myndir af sér á Twitter. Skjáskot af vef The Independent

Fjórir breskir ríkisborgarar hafa nú verið settir í ferðabann og eigur þeirra frystar en þeir hafa verið sakaðir um að hafa reynt að fá fólk til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams á netinu. Bresk stjórnvöld báðu Sameinuðu þjóðirnar um að setja nöfn fólksins á lista yfir þá sem verða fyrir sérstökum refsiaðgerðum vegna glæpastarfsemi.

Bresku ríkisborgararnir sem eru á listanum eru allir taldir halda til í borginni Raqqa í Írak þessa dagana en hún er ein af stærstu borgunum þar sem Ríki íslams ræður ríkjum. Ríkisborgararnir eru á aldrinum 21-46 ára og koma frá Kent, Glasgow, Cardiff og High Wycombe.

Sú elsta er hin 46 ára gamla Sally-Anne Jones frá Kent. Samkvæmt frétt The Independent er talið að Jones hafi gifst hinum 21 árs gamla Junaid Hussain, skæruliða Ríkis íslams. Hann lést í árás Bandaríkjahers í ágúst en talið er að hann og Jones hafi verið að skipuleggja hryðjuverkaárás á Bretland þegar að Hussein lést. Jones er tveggja barna móðir og er talin hafa verið sett á listann vegna notkunar hennar á samfélagsmiðlum, en þar gefur hún konum og stúlkum ráð um hvernig best sé að ganga til liðs við Ríki íslams.

Aqsa Mahmood er talin stunda það sama en hún fór til Sýrlands árið 2013, þá aðeins 19 ára gömul. Hún er talin tilheyra al-Khanssaa flokknum sem stjórnar konum innan Ríkis íslams. Mahmood, sem er 21 árs í dag, notar Twitter og aðra samfélagsmiðla óspart við að hvetja til árása og nýliðasöfnunar í samtökunum. Þó að foreldrar stúlkunnar hafi grátbeðið hana um að snúa heim segist hún frekar vilja deyja í Sýrlandi en fara aftur til Bretlands.

Nasser Muthana er jafnaldri Mahmood og fyrrverandi nemi í læknisfræði. Hann fór til Sýrlands sama ár og Mahmood, 2013. Hann er talinn birtast í áróðursmyndböndum Ríkis íslams þar sem fólk er hvatt til að koma til Sýrlands. Hann á m.a. að hafa birst í myndbandi frá árinu 2014 sem heitir  „Það er ekkert líf án Jihad“.

Samkvæmt frétt The Independent hefur fjölskylda Muthana afneitað honum og hefur faðir hans m.a. sagt að sonur hans eigi skilið að deyja hafi hann tekið þátt í aftökum samtakanna.

Omar Hussein er 28 ára gamall og frá High WycombeTalið er að hann hafi ferðast til Sýrlands á síðasta ári til þess að ganga til liðs við ríki íslams. Hussain er áberandi á heimasíðum öfgahópa og samfélagsmiðlum. Hann hefur hvatt konur og börn að koma til Sýrlands til þess að ala upp „næstu kynslóð“.

Hann hefur einnig sagt á samfélagsmiðlum að hann myndi aðeins koma aftur til Bretlands til þess að koma þar fyrir sprengju.

Á listanum sem var birtur í gær og er 56 blaðsíður má einnig sjá skæruliða frá Bandaríkjunum, Írak, Egyptalandi og Sádi-Arabíu. Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron sagði í samtali við The Financial Times mikilvægt að erlendir bardagamenn í Írak og sýrlandi verði látnir svara fyrir brot sín.

Aqsa Mahmood (t.v) er talin vera einn öflugasti meðlimur Ríkis …
Aqsa Mahmood (t.v) er talin vera einn öflugasti meðlimur Ríkis íslams þegar það kemur að því að tæla aðrar konur til Sýrlands. Skjáskot af Twitter
Nasser Muthana er talinn hafa birst í myndböndum sem sýna …
Nasser Muthana er talinn hafa birst í myndböndum sem sýna hrottafullar aftökur. Skjáskot
Omar Hussein hefur sagt að hann myndi aðeins koma aftur …
Omar Hussein hefur sagt að hann myndi aðeins koma aftur til Bretlands til þess að koma þar fyrir sprengju. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert