Snowden slær í gegn á Twitter

Bandarískri uppljóstrarinn Edward Snowden.
Bandarískri uppljóstrarinn Edward Snowden. AFP

Bandaríkjamaðurinn Edward Snowden, sem frægastur er fyrir að hafa ljóstrað upp um ýmis leynigögn bandarískra stofnana, stofnaði reikning á Twitter í dag. Hefur hann strax safnað hátt í 400 þúsund fylgjendum á síðunni.

Sjálfur hefur hann aðeins ákveðið að fylgja einum aðila, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, þaðan sem hann stal rafrænum gögnum sem sýndu fram á leynilegar hlerunaraðgerðir stofnunarinnar.

„Heyrið þið í mér núna?“ spurði hann í sínu fyrsta tísti, sem hefur síðan verið deilt mörg þúsund sinnum.

Í öðru tísti sínu vísaði hann til nýlegra frétta af plánetunni Mars og sagði í því samhengi að erfitt væri að finna hæli eftir að bandaríska ríkisstjórnin beindi augum sínum að honum eftir að lekinn kom í ljós.

„Og nú höfum við vatn á Mars,“ skrifaði hann. „Ætli þau skoði vegabréf við landamærin? Er að spyrja fyrir vin.“

Snowden hefur búið í útlegð í Rússlandi síðan í júní árið 2013. „Áður vann ég fyrir ríkisstjórnina. Nú vinn ég fyrir almenning,“ segir í lýsingunni á Twitter-síðunni hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert