4,5 milljónir barna á flótta

AFP

Stríð og óstöðugleiki hafa sent að minnsta kosti 4,5 milljónir barna í fimm löndum á flótta. Börn sem búa í stríðshrjáðum löndum eru daglega í lífshættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). 

 Afshan Khan, framkvæmdastjóri neyðaraðstoðar UNICEF, segir að skelfilegar myndir af örlögum barna sem hafa reynt að komast til Evrópu hafi náð athygli fólks en málefnið nær langt út fyrir landamæri Evrópu. 

Heimurinn glímir við meiri flóttamannavanda en hann hefur gert frá því á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. Milljónir fjölskyldna hafa þurft að flýja heimili sín vegna átaka og miskunnarleysis í löndum eins og Afganistan, Sómalíu, Suður-Súdan, Súdan og Sýrlandi, segir Khan í tilkynningu UNICEF en í dag verða málefni flótta- og förufólks til umræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. UNICEF mun í dag birta raddir barna sem eru á flótta og hafa upplifað meiri neyð en nokkur maður ætti að þola í Twitterfærslum.

Frá því um áramót hefur rúm hálf milljón komið yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á flótta. Um það bil einn fimmti eru börn. Á sama tíma og ástandið í Evrópu hefur náð athygli heimsins þá eru milljónir til viðbótar á flótta víða um heim. 

Í Sýrlandi hefur stríðið, sem hefur varað í fjögur og hálft ár, neytt yfir fjórar milljónir til þess að setjast að í flóttamannabúðum og yfirfullum neyðarskýlum í Jórdaníu, Írak, Líbanon og Tyrklandi.

Í Afganistan hafa 2,6 milljónir flúið landið og í Sómalíu hafa átök í landinu og hungursneyð sent yfir eina milljón á flótta úr landi. Yfir helmingur þeirra eru börn. 

Tæplega 666 þúsund manns hafa flúið átökin í Súdan og 760 þúsund manns, tæplega tveir þriðju eru börn, hafa flúið Suður-Súdan þegar átökin sem þar geisa brutust út í desember 2013.

Börn í þessum löndum eiga á hverjum degi hættu á að vera rænt, að hljóta örkuml, send í hernað og deyja. Ferðalagið á griðastað er ekki auðvelt og mjög hættulegt. Hvort sem það er á sjó eða á landi. Því börnin eru oft upp á náð og miskunn smyglara auk þess sem þau bera byrðar líkamlegs- og andlegs tjóns af völdum stríðs og ógnar. 

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina