Hvað eru Rússar að gera í Sýrlandi?

Pútín lyftir glasi við hádegisverð í boði Ban Ki-moon í …
Pútín lyftir glasi við hádegisverð í boði Ban Ki-moon í höfuðstöðvum SÞ í gær. AFP

Rússar hófu í dag fyrstu loftárásir sínar í Sýrlandi, það sem þeir sögðu vera aðgerð til að sigrast á vígamönnum Íslamska ríkisins. Vesturlönd eru hins vegar efins um tilgang árásanna og fullyrða jafnvel að Kremlverjar séu með þessu að koma sínum gamla bandamanni til aðstoðar, forsetanum umdeilda Bashar al-Assad.

Loft­árás­irnar áttu sér stað í þrem­ur sýr­lensk­um héruðum, Hama, Homs og Latakíu. Bresku mann­rétt­inda­sam­tök­in The Syri­an Observatory for Hum­an Rights, greindu í kjölfarið frá því að minnsta kosti 27 óbreytt­ir borg­ar­ar hafi látið lífið í loft­árás­um í Homs héraðinu, en yf­ir­ráðum þar er að mestu skipt í tvennt, milli sýr­lenska stjórn­ar­hers­ins og Ríki íslams.

Hversu mikið herlið hafa Rússar í Sýrlandi?

Rússar hafa nú að minnsta kosti 32 orrustuþotur í Sýrlandi samkvæmt heimildum frá bandarískum embættismönnum. Eru þær á flugvelli sem Rússar hafa styrkt og breytt í aðgerðamiðstöð fyrir Latakíu-hérað.

Þar eru einnig í kringum 500 hermenn en tilgangur þeirra er talinn vera að verja herstöðina gegn árásum. Þegar aðstoðarstarfsmenn, flugmenn og -áhafnir eru taldir með eru líklega um 2 þúsund manns í herstöðinni.

Þá hafa Rússar enn fremur sent þangað skriðdreka, stórskotaliðssveitir og herþyrlur.

Eru Rússar í samvinnu með bandalagi Bandaríkjamanna?

Bandarísk yfirvöld segja að rússneskur hershöfðingi, sem starfi í Bagdad, hafi gengið að bandaríska sendiráðinu og látið þau vita með klukkustundar fyrirvara að orrustuþotur Rússa væru á leið til loftárása yfir Sýrlandi.

Engar nákvæmari upplýsingar voru gefnar um staðsetningu eða hvernig árásirnar færu fram. Voru aðgerðirnar því ekki í samræmi við tillögur stjórnvalda í Pentagon, sem miða að því að forða árekstrum flugvéla bandalagsins við þotur Rússa.

Ashton Carter, varnarmálaráðhera Bandaríkjanna, sagði eftir árásirnar að viðræður á milli herjanna tveggja myndu hefjast innan nokkurra daga.

Hvert er markmið Rússa?

Rússar hafa sagt að loftárásir þeirra hafi beinst að vígamönnum Íslamska ríkisins, en Bandaríkjamenn hafa dregið þær fullyrðingar í efa. Segja þeir Rússa hafa ráðist gegn andspyrnuliði Sýrlendinga, sem berst gegn ríkisstjórn Assads.

NATO-hershöfðinginn Philip Breedlove sagði á mánudag að Rússar hefðu komið fyrir loftvarnarflaugum við stöðvar sínar í Sýrlandi. Benti hann á að þær myndu gagnast lítið gegn Íslamska ríkinu, sem hefur yfir engum flugvélum að ráða.

Flaugarnar gætu hins vegar nýst til að mynda eins konar „varnarkúlu“ utan um Sýrland, sem gætu hindrað aðgerðir bandalagsins.

Hvernig mun koma Rússa breyta átökunum?

Rússar búa vel að því að geta samræmt aðgerðir sínar með Assad, þar sem hægt er að undirbúa árásir og deila upplýsingum með ríkisstjórninni.

Hernaðarsérfræðingar hafa bent á þær takmarkanir sem felast í sprengjuárásum. Átökin í Sýrlandi eigi sér stað í þéttbýliskjörnum og skæruliðarnir forðist það að færa sig úr stað fylktu liði.

Rússar hafa tekið fram að þeir hafi engin áform uppi um að afla herliði á jörðu niðri.

Carter sagði í dag að bandalagið myndi halda áfram árásum sínum gegn Íslamska ríkinu. „Við ætlum okkur ekki að gera neinar breytingar á árásum úr lofti.“

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti við morgunbænir í Damaskus.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti við morgunbænir í Damaskus. AFP
Mynd sem rússneska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér, sem á að …
Mynd sem rússneska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér, sem á að sýna loftárásirnar sem áttu sér stað í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina