Meirihluti Breta vill úr ESB

mbl.is

Fleiri Bretar vilja úr Evrópusambandinu en vera þar áfram innanborðs samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem framkvæmd var af fyrirtækinu YouGov.

Samkvæmt könnuninni vilja 40% Breta segja skilið við sambandið en 38% eru því andvíg. Sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti vilja 51% úr ESB en 49% vera þar áfram. Fjallað er um könnunina á fréttavef Daily Telegraph.

Þetta er önnur skoðanakönnunin á skömmum tíma sem sýnir fleiri hlynnta því að yfirgefa ESB en könnun sem gerð var af fyrirtækinu og birt í byrjun þessa mánaðar sýndi sömu niðurstöður eða 51% hlynnt því að segja skilið við sambandið og 49% hlynnt áframhaldandi veru innan þess. 

Þetta er fyrsta skoðanakönnun YouGov sem sýnir fleiri hlynnta því að yfirgefa ESB en þá sem vilja vera þar áfram í töluverðan tíma. Niðurstöðurnar sýna ennfremur mikla breytingu frá könnun YouGov í febrúar á þessu ári þegar 45% vildu vera áfram í ESB en 35% voru því andvíg.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið því að þjóðaratkvæði fari fram um veru Bretlands í ESB fyrir árslok 2017. Talið er líklegt að kosningin fari fram einhvern tímann á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert