Páfi hitti sýsluritarann

Kim Davis, sýsluritari í Kentucky, segist hafa átt einkafund með …
Kim Davis, sýsluritari í Kentucky, segist hafa átt einkafund með páfa í síðustu viku. AFP

Lögmenn Kim Davis, sýsluritarans sem sendur var í fangelsi fyrir að neita að gefa út hjúskaparvottorð til samkynhneigðra para, segja að hún hafi fengið einkafund með Frans páfa þegar hann heimsótti Bandaríkin í síðustu viku. Talsmenn Páfagarðs neita því ekki að fundurinn hafi átt sér stað.

Fundurinn er sagður hafa átt sér stað í sendiráði Páfagarðs í Washington á fimmtudag. Mat Staver, lögmaður Davis, segir að hann hafi varað í tíu mínútur og á honum hafi aðeins verið páfi, Davis og eiginmaður hennar. Myndir yrðu birtar síðar en lögmaðurinn skýrði ekki frekar hvers vegna þær væru ekki birtar strax, að því er kemur fram í frétt CNN.

„Ég varð auðmjúk af því að hitta Frans páfa. Af öllu fólki, hvers vegna ég? Frans páfi var góður, raunverulega umhyggjusamur og mjög geðþekkur. Hann bað mig jafnvel um að biðja fyrir sér. Frans páfi þakkaði mér fyrir hugrekki mitt og sagði mér að „vera sterk“,“ segir í yfirlýsingu frá Davis.

Talsmenn Páfagarðs neituðu í fyrstu að staðfesta hvort að fundurinn hefði átt sér stað. Síðar sögðust þeir ekki neita því að hann hefði í raun farið fram en þeir hefðu ekkert við yfirlýsingu Davis að bæta.

Frans páfi var spurður út í opinbera embættismenn sem neita að sinna skyldustörfum sínum á grundvelli samviskufrelsis á leiðinni heim frá Bandaríkjunum, án þess þó að Davis væri nefnd sérstaklega í því samhengi.

„Ég get sagt að samviskufrelsi er réttur sem er hluti af öllum mannréttindum. Það er réttur. Samviskufrelsi verður að vera til staðar í öllum lagalegum stofnunum vegna þess að það er réttur, mannréttindi,“ svaraði páfi.

Davis sat í tukthúsinu í sex daga eftir að hún neitaði því að gefa út hjúskaparvottorð þrátt fyrir að dómstólar hefðu kveðið upp úr um að henni væri það skylt. Hún bar fyrir sig kristna trú sína sem meinaði henni að staðfesta hjúskap samkynhneigðra para.

Frétt CNN af fundi Frans páfa og Kim Davis

Frans páfi þegar hann yfirgaf Bandaríkin eftir heimsókn sína þar …
Frans páfi þegar hann yfirgaf Bandaríkin eftir heimsókn sína þar í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert