Pútín, Merkel og Hollande funda um Úkraínu

Vladimír Pútin, forseti Rússlands, er sagður vilja notfæra sér aðgerðir ...
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, er sagður vilja notfæra sér aðgerðir Rússa í Sýrlandi sem skiptimynt í viðræðum við vesturveldin um Úkraínu. AFP

Leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Úkraínu ætla að hittast í París á föstudag til þess að freista þess að blása lífi í friðarviðræður í síðastnefnda landinu. Vopnahlé sem samið var um í byrjun þessa mánaðar hefur að mestu haldið en pólitísk lausn á átökunum er enn hvergi í augsýn.

Samkvæmt Minsk II-samkomulaginu svonefnda sem skrifað var undir í febrúar verða kosningar haldnar í Austur-Úkraínu fyrir árslok og eiga aðskilnaðarsinnar þar að skila stjórn á landamærunum að Rússlandi aftur til úkraínskra stjórnvalda. Búist er við að þau mál verði efst á dagskrá þjóðarleiðtoganna í París ásamt því að tryggja aðgengi aðþjóðlegra eftirlitsmanna að því svæðum sem uppreisnarmenn halda og brotthvarf þungavopna frá víglínunni.

Átökin í Sýrlandi hafa dregið athygli heimsbyggðarinnar frá Úkraínu. Rússar hófu loftárásir þar í dag gegn andstæðingum Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Líkur hafa verið leiddar að því að nýjasta útspili Vladimírs Pútín í málefnum Sýrlands sé meðal annars ætlað að styrkja samningsstöðu hans gagnvart vesturveldunum þegar kemur að Úkraínu. Hann vilji til dæmis reyna að fá vesturlönd til að létta á viðskiptaþvingunum sem þau hafa beitt Rússa vegna afskipta þeirra af Úkraínu.

Talsmenn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sögðu hins vegar í vikunni að málefnum Sýrlands annars vegar og Úkraínu hins vegar yrði ekki blandað saman. Francois Hollande, forseti Frakklands, mun einnig sitja fundinn á föstudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina