Rússar sprengdu óvini Ríkis íslams

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakkalands, vill að Rússar geri grein fyrir …
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakkalands, vill að Rússar geri grein fyrir þeim skotmörkum sem þeir réðust á í dag. AFP

Loftárásir sem Rússar hófu í Sýrlandi í morgun beindust ekki að Ríki íslams heldur að óvinum þess og Bashars al-Assad, forseta landsins, að sögn sérfræðinga. Frönsk stjórnvöld hafa einnig grun um að Ríki íslams hafi ekki verið skotmark árásanna í dag.

Rússar hófu fyrstu loftárásir sínar í Sýrlandi í dag eftir að Assad hafði beðið þá um hernaðaraðstoð. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur kynnt hernaðaraðgerðirnar sem lið í baráttunni gegn hryðjuverkahópum, sér í lagi Ríki íslams. Rússnesk stjórnvöld sögðu jafnframt að árásirnar í dag hefðu beinst gegn liðsmönnum samtakanna.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sagði hins vegar í dag að vísbendingar væru um að loftárásir Rússa hafi alls ekki beinst að Ríki íslams. Í frétt á vefnum Vox er ennfremur vitnað til nokkur sérfræðinga í málefnum Sýrlands sem benda á að þau svæði sem loftárásirnar voru gerðar séu alls ekki á valdi öfgasamtakanna. Rússar séu í raun að varpa sprengjum á andstæðinga Ríki íslams úr röðum andspyrnuhreyfinga gegn sýrlensku stjórninni.

Það samræmist því markmiði Rússa að styðja við bakið á bandamanni sínum Assad í baráttu hans gegn uppreisnaröflum.

Fabius krafðist þess jafnframt að Rússar staðfestu þau skotmörk sem þeir hefðu ráðist á. Lagði hann einnig áherslu á að Assad forseti yrði að stíga til hliðar til að gefa sýrlensku þjóðinni von á nýjan leik.

„Örlög sýrlensku þjóðarinnar geta ekki takmarkast við hryllingsaðstæður þar sem hún verður að velja á milli glæpsamlegra stjórnvalda og villimannslegrar hryðjuverkastarfsemi,“ sagði franski utanríkisráðherrann.

Frétt Vox af loftárásum Rússa í Sýrlandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert