Hvað kom fyrir Emilie König?

Ungar konur af Vesturlöndum hafa farið til Sýrlands og gengið …
Ungar konur af Vesturlöndum hafa farið til Sýrlands og gengið þar til liðs við skæruliðahreyfingar eins og Ríki íslams. AFP

Emilie König ólst upp á venjulegu frönsku heimili, dóttir lögreglumanns á Bretagne. Í dag er hún á lista yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn og starfar með franskri sveit íslamista sem berjast við hlið liðsmanna Ríkis íslams. Hvað gerðist fyrir Emilie König?

Hlutverk König, 31 árs, er að breiða út boðskapinn og fá fleiri nýliða til lags við hryðjuverkahópinn. Hún er mjög virk á samfélagsmiðlum og vel þekkt meðal franskra sérsveitarmanna sem berjast gegn hryðjuverkum. 

Fyrir ári síðan var hún sett á lista Sameinuðu þjóðanna yfir þá sem fylgjast ætti vel með og í vikunni var nafni hennar bætt á lista bandarískra stjórnvalda yfir hryðjuverkamenn. Ein helsta ástæðan er sú að hún hefur reynt að hvetja til árása á opinberar stofnanir í heimalandinu.

Eignir hennar í Frakklandi voru frystar árið 2012 en þá yfirgaf hún Frakklands og hélt til Sýrlands til þess að taka þátt í heilögu stríði við hlið eiginmanns síns sem þegar var farin þangað til að berjast með Ríki íslams. Hún var meðal 100 fyrstu Frakkana til að ganga til liðs við samtökin. 

Emilie König fæddist 19. desember 1984 í  Ploemeur, úthverfi Lorient. Hún er yngst fjögurra systkina. Allt lék í lyndi þar til hún kynntist eiginmanni sínum sem var frá Alsír og hafði setið í fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl. Hún snérist til íslam, lærði arabísku og hóf að kalla sig Samra. König klæddist alltaf klút sem huldi andlit hennar (niqab) og komst í samband við franska íslamista sellu, Forsane Alizza, sem komst í fréttirnar fyrir mótmæli sín gegn banni við því að konur hyldu andlit sitt með niqab á almannafæri árið 2010.

Nokkrir liðsmenn Forsane Alizza hafa síðan tengst hryðjuverkum. Til að mynda Jassin Salhi sem afhöfðaði yfirmann sinn og festi höfuð hans á stöng í gasverksmiðju með fána íslamista allt í kring.

Árið 2010 vakti König athygli yfirvalda þar sem hún var, klædd niqab, hvetja til hryðjuverka í bréfi sem hún dreifði skammt frá mosku í Lorient. Hún sást einnig oft fremst í flokki í mótmælaaðgerðum í París og ávalt klædd í fullan niqab skrúða.

Árið 2012 var hún dregin fyrir dóm fyrir aðgerðir sínar og þar tókst henni að setja allt í bál og brand með því að neita að fjarlæga slæðuna frá andlitinu og lenda í orðaskaki við öryggisverði. Hún tók allt upp á myndband með snjallsíma sínum og birti á YouTube.

Eftir að stjórnvöld bönnuðu starfsemi Forsane Alizza árið 2012, en samtökin eru nefnd einkaher í gögnum yfirvalda, opnaði König nokkrar Facebooksíður og hvatti til heilags stríðs.

Um svipað leyti hélt hún til Sýrlands en í Frakklandi var hún til rannsóknar vegna aðildar að því að hópur ungmenna frá borginni Nimes yfirgáfu heimalandið til þess að berjast fyrir Ríki íslams. Líkt og margar aðrar konur sem hafa gengið til liðs við samtökin þá má hún ekki taka þátt í bardögum en birtist oft í áróðursmyndskeiðum.  Í einu þeirra, sem er frá árinu 2013, sést hún æfa sig að skjóta með haglabyssu í Sýrlandi. Í öðru sést hún senda sonum sínum tveimur, sem búa í Frakklandi hjá ömmu sinni, áróðursskilaboð. 

„Ekki gleyma því að þið eruð múslímar,“ segir hún við drengina. „Heilögu stríði mun ekki ljúka svo lengi sem það eru óvinir sem þarf að eyða.“

Samkvæmt upplýsingum sem eru skráðar hjá öryggisráði SÞ þá hringir hún oft í félaga í Frakklandi frá Sýrlandi og hvetur þá til ofbeldisverka gagnvart ákveðnum skotmörkum, svo sem opinberum stofnunum eða eiginkonum hermanna. Hún hefur jafnvel boðið sig fram sem píslarvott, að fremja sjálfsvígsárás fyrir málstaðinn.

König er ein þriggja Frakka sem sett voru á 35 manna lista yfir hættulega hryðjuverkamenn sem tilheyra Ríki íslams nýverið. Meðal annarra á þessum lista eru Maxime Hauchard, sem hefur sést á myndskeiðum Ríkis íslams þar sem aftökur fara fram og Peter Cherif, liðsmaður  Al-Qaeda í Jemen. 

En það sem hefur sennilega vakið mesta athygli hvað varðar listann er hversu margar ungar vestrænar konur leika lykilhlutverk hjá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Einkum þegar kemur að því að fá nýliða til lags við samtökin. 

Má þar nefna skoska hryðjuverkamanninn, Aqsa Mahmood, sem fór til Sýrlands í fyrra til þess að ganga í hjónaband með hermanni Ríkis íslams og rekur þar enskumælandi bloggsíðu sem er uppspretta allskonar áróðursskilaboða frá Ríki íslams. Eins er fyrrverandi pönksöngkonan breska, Sally Jones listanum en hún hefur starfað leynt og ljóst að því að fá fleiri konur til liðs við Ríki íslams.

Paris Match

Europe1

LeMonde

Upplýsingar um König á vef öryggisráðs SÞ

Fáni Ríkis íslams
Fáni Ríkis íslams AFP
König klæddist alltaf klút sem huldi andlit hennar (niqab)
König klæddist alltaf klút sem huldi andlit hennar (niqab) -
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert