Meinað að senda gögn til Bandaríkjanna

AFP

Facebook og fleiri bandarísk tæknifyrirtæki gætu lent í því að vera meinað að senda trúnaðargögn um fólk frá löndum Evrópusambandsins eftir að Evrópudómstóllinn dæmdi að samkomulag sem nefnt hefur verið „Örugg höfn“ (e. Safe Harbour) væri ógilt. Samkomulagið er 15 ára gamalt.

Þetta hefur það í för með sér að persónuvernd hinna ýmsu Evrópulanda getur núna komið í veg fyrir að upplýsingar sem samkomulagið tók til verði sendar milli Evrópu og Bandaríkjanna. Gögn um notendur Facebook verða nú skoðuð af persónuvernd Írlands og sú staða gæti komið upp að fyrirtækinu væri meinað að senda upplýsingar frá höfuðstöðvum sínum í Evrópu, sem eru á Írlandi, til Bandaríkjanna.

Í frétt Telegraph segir að niðurstaðan komi í kjölfar skoðunar vegna ásakana um að persónuvernd Bandaríkjanna hafi ekki staðið sig í stykkinu. Mikil spenna hefur ríkt milli Bandaríkjanna og Evrópulanda vegna persónuupplýsinga og er niðurstaðan talin stórsigur þeirra sem berjast fyrir auknu persónufrelsi, baráttu sem Austurríski nemandinn Max Schrems hefur farið fyrir.

Max Schrems meðan hann beið eftir niðurstöðu dómsins.
Max Schrems meðan hann beið eftir niðurstöðu dómsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert