Aldrei aftur Wallander

Þessi mynd af Henning Mankell var tekin í júní 2013.
Þessi mynd af Henning Mankell var tekin í júní 2013. AFP

Sænski rithöfundurinn Henning Mankell, sem lést aðfararnótt mánudags, var gallharður á því að sögupersónur hans, þar á meðal lögreglumaðurinn vinsæli, Kurt Wallander, yrðu aldrei endurvaktir upp af öðrum rithöfundi.

„Það kemur ekki til greina að það muni koma út fleiri bækur um Wallander,“ segir Dan Israel, sem stýrir útgáfunni Leopard sem hann og Mankell stofnuðu árið 2001.

 Israel segir að hann muni alltaf standa í veginum fyrir slíkum tilraunum. Með þessu fer hann aðra leið heldur en útgefandi Millennium þríleiksins sem Stieg Larsson skrifaði á sínum tíma. Fyrir nokkrum vikum kom út fjórða bókin í flokknum, rúmum áratug eftir andlát Larsssons árið 2004. Mjög hefur verið deilt um þá ákvörðun að gefa út fjórðu bókina og var sambýliskona Larssons afar mótfallin því en þar sem hún er ekki erfingi hans heldur faðir hans og bróðir þá fékk hún engu um það ráðið.

Svipað var með bækur Ian Flemmings um James Bond en Flemming lést árið 1964 og fjölmargar bækur um Bond hafa verið framleiddar síðan þá.

Mankell gaf út síðustu bókina (Órólegi maðurinn) um Wallander árið 2009 og þar kveður hann Wallander með eftirminnilegum hætti og á öllum að vera ljóst að höfundurinn setur þar síðasta punktinn í frásögnum sínum af Wallander.

Israel tekur undir það og ætlar að tryggja að farið verði að vilja Mankells. „Ekkert verður samþykkt án heimildar frá mér,“ segir hann en Mankell var að skrifa bók þegar hann lést úr krabbameini 67 ára að aldri. Israel segir aðeins um uppkast að ræða og ekki tilbúið til birtingar.

Mankell var fæddur í Stokkhólmi árið 1948 og eftir skilnað foreldranna ólst hann að mestu upp hjá föður sínum sem var héraðsdómari í Sveg og Borås. Síðustu áratugi bjó Mankell einkum í Afríku ásamt eiginkonu sinni, Evu Bergman, sem er dóttir leikstjórans heimskunna, Ingmars Bergman.

Mankell kom nokkrum sinnum til Íslands en í október 2010 birti Morgunblaðið viðtal sem Árni Matthíasson tók við sænska rithöfundinn. Það birtist hér aftur:

Kurt Wallander í Ystad

Mankell er og þekktastur fyrir glæpasögur sínar, bækurnar um lögregluforingjann Kurt Wallander sem gerast í Ystad syðst í Svíþjóð. Fyrsta bókin um Wallander og glæparannsóknir hans kom út 1991, en alls eru bækurnar um hann orðnar níu og sú tíunda væntanleg á næsta ári. Sjö þeirra hafa komið út á íslensku, Morðingi án andlits, Hundarnir í Riga, Hvíta ljónynjan, Brosmildi maðurinn, Á villigötum, Fimmta konan og Skrefi á eftir. Einnig hafa komið út barnabækur eftir Mankell, sögur af Jóel: Hundurinn sem hljóp upp til stjörnu, Skuggarnir lengjast í rökkrinu, Drengurinn sem svaf með snjó í rúminu og Ferðin á heimsenda. Bækurnar eru komnar á fjórða tuginn, en Mankell hefur líka skrifað handrit fyrir sjónvarpsþætti, til að mynda standa tökur nú yfir á þáttum um tengdaföður hans, Ingmar Bergmann, og á fimmta tug leikrita.

Bókin sem kemur út í vikunni, Danskennarinn snýr aftur, Danslärarens återkomst, er sjálfstæð saga og kom út á sænsku fyrir áratug. Hún er í takt við margt annað sem Mankell hefur skrifað, á yfirborðinu saga um glæpi, en þegar grannt er skoðað er hann líka að velta fyrir sér pólitískum spurningum, eins og hann lýsir því: „Á undanförnum misserum hafa hægri- og íhaldsmenn sótt í sig veðrið víða í Evrópu, en þrátt fyrir það trúa margir því að öfgahægrimenn á við nasista á fjórða áratug síðustu aldar gætu ekki komist til valda að nýju. Það er rétt að vissulega yrði það ekki nákvæmlega eins og nasistarnir, en að mínu mati gæti það orðið eitthvað jafnslæmt eða verra. Mér fannst því forvitnilegt að velta slíku fyrir mér, að skrifa um sambandið á milli ný-íhaldsmanna og íhaldsmanna fyrri tíma sem varð að grunnhugmynd sögunnar.“

Wallander er einskonar eimreið

Sænskar glæpasögur eru á allra vörum nú um stundir í kjölfar velgengni Millennium-þríleiks Stiegs Larssons. Segja má að annar hver glæpasagnahöfundur hafi verið markaðssettur svo að þar færi hinn (eða hin) nýi Stieg Larsson. Í því sambandi þótti mér skemmtilegt að sjá það nefnt í bandarísku dagblaði að Henning Mankell væri arftaki Stiegs Larssons, enda hefði ég frekar snúið því á hinn veginn. Mankell hlær þegar ég nefni þetta við hann. „Ég hef líka heyrt þetta, en maður getur ekki annað en hlegið þegar fjölmiðlar eða bloggarar taka upp á þessu,“ segir hann, en bækur hans hafa alls selst í á hálfan þriðja tug milljóna eintaka um heim allan.

„Fyrsta bókin kom út 1973 þegar ég var mjög, mjög ungur,“ segir hann og bætir við að allt frá fyrstu bókinni hafi salan verið góð. „Ég var því alltaf með lesendur, en síðan þegar fyrsta Wallander-bókin kom út átján árum síðar fjölgaði þeim mjög mikið. Wallander hefur verið eins konar eimreið, sem er vitanlega gott á sinn hátt, og meðal annars haft það í för með sér að nú eru ýmsir að þýða eldri bækur mínar og gefa út, sem ég kann mjög vel að meta.“

Á annað þúsund persónur

Í spjalli við erlendan glæpasagnahöfund fyrir nokrum árum sagði hann að höfuðpersónan í bókum hans væri að nokkru leyti stílfærð mynd af honum sjálfum eða þeim manni sem hann gjarnan vildi vera. Ég ber þetta undir Mankell, en hann tekur dræmt í það.

„Fólk heldur gjarnan að rithöfundur sé í einhverju sambandi við sögupersónur sínar, en það er í raun lesandinn sem á í því sambandi. Ég er ekki í neinu sérstöku sambandi við Kurt Wallander, hann er bara persóna sem ég bjó til, ein af fjölmörgum persónum; einhver taldi þær saman og þær eru víst á annað þúsundið og ég veit til að mynda ekki hve margar þeirra heita Johansson,“ segir Mankell og hlær. „Það er lesandans að tengjast sögupersónunum, ekki höfundarins, og ég ber engar sérstakar tilfinningar til Kurts Wallanders þótt auðvitað sé eitthvað af sjálfum mér í honum eins og hlýtur að gerast með allar sögupersónur sem ég bý til, hvort sem það er ung kínversk stúlka eða miðaldra lögregluforingi. Það á við um allar bókmenntir að mínu mati, en fyrir mér hefur aldrei vakað að búa til persónu sem líkist mér á einhvern hátt. Að því sögðu eigum við Wallander auðvitað sitthvað sameiginlegt; við erum á sama aldri, höfum báðir dálæti á ítölskum óperum og við vinnum báðir mjög mikið, en ég held það sé fátt annað.“

Mankell hefur verið afkastamikill höfundur og er enn, segir enda að sköpunargleðin sé drifkraftur lífs hans. „Þegar ég hætti að geta skrifað hætti ég að lifa,“ segir hann. „Ég skrifa á hverjum degi, en þótt ég sé ekki gefinn fyrir frí finnst mér stundum skynsamlegt að gera aðra hluti. Þegar maður lifir lífi sem byggist á því að skapa hefur maður ákveðið frelsi, en líka skyldur og verður að beita sig aga. Ég þekki reyndar ekki annað líf og get því lítið um þetta talað, en ég held að ég gæti ekki lifað öðruvísi.“

Sjómennskan minn skóli

Mankell fæddist í Stokkhólmi í febrúar 1948, en ólst upp í smábænum Sveg í Norður-Svíþjóð, þar sem bækurnar um Jóel gerast einmitt. Hann fékk snemma mikið dálæti á frásögnum landkönnuða, dreymdi um að kanna myrkviði Afríku. Fjölskyldan fluttist síðan til Borås, en Mankell kunni illa við sig í skóla þar í borg, var eirðarlaus, og þegar hann var sextán ára réð hann sig á fragtskip sem var í siglingum á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ég spyr hann að því hvort það hafi verið í ætt við það sem gert var hér á landi forðum – að ódælir drengir voru sendir í sveit.

„Ég held ég hafi nú ekki verið erfiður unglingur. Á þeim tíma var sjómennskan eina leiðin til að komast úr landi, til að sjá eitthvað af umheiminum, en ég lærði líka að vinna hratt og líka að bera ábyrgð á sjálfum mér og að því leyti var sjómennskan mjög mikilvæg. Ég var ekki vandræðapési, en ég vissi hvað ég vildi gera og mér leiddist í skóla, þannig að það var nauðsynlegt fyrir mig að komast út. Að því leyti var það eins og að ganga í skóla.“

Handtekinn á Miðjarðarhafi

Mankell var á einu skipanna sem siglt var frá Tyrklandi til að reyna að hnekkja hafnbanni Ísraela á Gaza-ströndina í maí í sumar og var þá handtekinn eins og aðrir í skipalestinni og honum vísað úr landi í framhaldinu. Það voru þó ekki fyrstu skref hans í pólitísku starfi, því hann hefur verið virkur í pólitík frá því í lok sjöunda áratugarins er hann tók þátt í umfangsmiklum mótmælum námsmanna í Stokkhólmi. Hann segir að pólitískur áhugi hans fari síst minnkandi, „enda búum við í hræðilegum heimi og það er skylda okkar, hvers og eins, að reyna að gera hann betri og það mun ég gera þar til yfir lýkur.

Ég trúi þeim gömlu sannindum að á meðan til er einhver sem nýtur ekki fullkomins frelsis þá nýtur enginn frelsis í raun. Ég trúi því einnig að hægt sé að byggja upp betri og réttlátari heim en þann sem við búum í í dag og það er skylda okkar að berjast fyrir slíkum heimi, skylda okkar allra og þá sérstaklega menntamanna, sem eiga að skilja þetta betur en aðrir.“

Dan Israel, stjórnarformaður útgáfufélagsins Leopard.
Dan Israel, stjórnarformaður útgáfufélagsins Leopard. AFP
Dan Israel
Dan Israel AFP
Henning Mankell
Henning Mankell AFP
Henning Mankell
Henning Mankell AFP
mbl.is