Innblásnir af fyrri fjöldamorðum

Fólk minntist fórnarlamba skotárásarinnar í Roseburg í Oregon í síðustu …
Fólk minntist fórnarlamba skotárásarinnar í Roseburg í Oregon í síðustu viku.

Athyglin sem fjöldamorð eins og ítrekaðar skotárásir sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum fá getur virkað sem hvatning fyrir aðra ofbeldisfulla einstaklinga til að fremja morð. Sérfræðingar segja að flestir ef ekki allir þeir sem fremja fjöldamorð af þessu tagi hafi kynnt sér fyrri morð ítarlega.

Skotárásin í háskóla í Oregon-ríki í síðustu viku þar sem byssumaður á þrítugsaldri myrti níu manns er aðeins nýjasta dæmið um fjöldamorð þar sem vopnaðir menn bana fjölda manns í Bandaríkjunum. Slíkar árásir fá jafnan mikla athygli í fjölmiðlum, sagt er ítarlega frá morðingjanum og ástæðum hans auk þess sem árásunum er lýst í miklum smáatriðum.

Áður en árásarmaðurinn í Oregon lét til skarar skríða birti hann myndband á netinu um skotárásina í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut árið 2012. Fjöldamorðinginn frá Sandy Hook hafði sjálfur lært af árásinni í Columbine-skólanum í Colorado árið 1999 þar sem þrettán manns voru myrtir og af fjöldamorðum Anders Behring Breivik í Útey árið 2011.

Sérfræðingar telja enda að atburðir af þessu tagi séu ekki aðeins einangruð ofbeldisverk reiðra einstaklinga heldur byggi þeir á voðaverkum fortíðarinnar. Þeir hafi kynnt sér fyrri fjöldamorð í þaula og jafnvel lýst aðdáun sinni á þeim sem frömdu þau, að því er kemur fram í umfjöllun New York Times.

Auðvelt að finna upplýsingar um fyrri árásir

Af þessum sökum hafa heyrst raddir um að fjölmiðlar ættu að breyta umfjöllun sinni um fjöldamorð. Löggæsluyfirvöld á sumum stöðum hafa lagt að fjölmiðlum að þeir meðhöndli skotárásir af þessu tagi eins og sjálfsmorð unglinga, þar á meðal með því að nafngreina ekki árásarmennina. Sýslumaðurinn í Douglas-sýslu í Oregon þar sem skotárásin átti sér stað í síðustu viku reyndi að fá fjölmiðla til þess að fylgja þeirra stefnu, án árangurs.

„Ef þú básúnar nöfnum og andlitum árásarmanna á fréttastöðvum og endurtekur nöfn þeirra í sífellu þá gætu menn óafvitandi verið að búa til fyrirmynd,“ segir dr. Deborah Weisbrot aðstoðarprófessor í sálfræði við Stony Brook-háskólann en hún hefur tekið viðtöl við hundruð manna, aðallega táningsdrengja, sem hafa haft í hótunum.

Margir þættir geta drifið fjöldamorðingja áfram, þar á meðal geðræn vandamál, að sögn sérfræðinga. Hver sá sem hafi áhuga á því geti hins vegar auðveldlega kynnt sér hvernig fjöldamorð voru framin með því að leita að fréttum, vefsíðum og á samfélagsmiðlum.

„Það væri erfitt að finna einhvern [morðingja] sem rannsakaði ekki áður þá sem fóru á undan honum,“ segir Robert A. Fein. sálfræðingur sem sérhæfir sig í ofbeldisárásum en hann skrifaði meðal annars skýrslu um skotárásir í skólum fyrir bandarísku leyniþjónustuna árið 2002.

Umfjöllun New York Times um skotárásir í Bandaríkjunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert