Páfi kallaði mótmælendur heimska

Frans páfi lét ummælin falla við argentínska ferðamenn á Péturstorgi …
Frans páfi lét ummælin falla við argentínska ferðamenn á Péturstorgi í maí. AFP

Myndbandsupptaka sýnir Frans páfa segja hópi ferðamanna á Péturstorgi að íbúar borgarinnar Osorno í Síle sem hafa mótmælt biskupi sem er sakaður um að hylma yfir kynferðisbrot prests væru „heimskir“ og að mótmælunum væri stjórnað af „vinstrisinnum“. 

„Samfélagið í Osorno þjáist vegna þess að það er heimskt,“ heyrist páfi segja í myndbandinu sem argentínskir ferðamenn tóku upp í maí en sjónvarpsstöð í Síle birti á föstudag. Fólkið hefði leyft sér að fylla höfð sín af því sem stjórnmálamenn segði því og dæmt biskupinn án nokkurra sannana. Fólkið ætti ekki að láta leiða sig áfram af „vinstrisinnunum“ sem stæðu að baki mótmælunum, að því er kemur fram í New York Times.

Osorno er borg í suðurhluta Síle. Frans páfi skipaði Juan Barros biskup í borginni þrátt fyrir ásakanir um að hann hefði breitt yfir kynferðisbrot sem Fernando Karadima, þekktur prestur í höfuðborginni Santiago, framdi á árum áður. Barros og Karadima unnu saman í þrjátíu ár en sá síðarnefndi var fundinn sekur um kynferðisbrot af yfirvöldum í Páfagarði árið 2011. Hann var dæmdur til eyða ævinni í einveru, bæn og iðrun.

Sagður hafa verið viðstaddur sum brotanna

Vitni segja hins vegar að Barros hafi verið vitni að glæpum Karadima og meðsekur í þeim. Eitt þeirra segir að hann hafi verið viðstaddur þegar Karadima braut gegn honum og öðrum, hann hafi hótað guðfræðistúdentum sem tilkynntu um athæfið og brennt bréf til erkibiskupsins í Santiago þar sem kvartað var undan brotunum.

Hundruð manna mótmæltu því þegar hann var settur í embætti í mars og hafa mótmælin gegn honum haldið áfram síðan. Mótmælendurnir furða sig á orðum Frans páfa sem fram að þessu hefur verið talinn sýna fórnarlömbum kynferðisbrota starfsmanna kaþólsku kirkjunnar meiri samúð en forverar hans.

„Ummæli páfans hafa ýft upp óánægju okkar. Það er kirkjan í Osorno sem er að mótmæla. Við tökum ekki við skipunum frá stjórnmálaflokkum,“ segir Juan Carlos Claret, talsmaður samtaka leikmanna í Osorno sem hafa staðið fyrir mótmælum gegn Barros í fleiri mánuði.

Páfi fullyrti í myndbandinu að ásakanirnar á hendur Barros ættu sér ekki stoð í raunveruleikanum og að dómstólar í Síle hefði vísað þeim frá. Hið rétta er hins vegar að rannsókn stendur enn yfir á vanrækslu og yfirhylmingu þjóna kirkjunnar vegna kynferðisbrotamála, þar á meðal þeirra sem Karadima framdi.

Umfjöllun New York Times um orð páfa um mótmælendur í Osorno

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert