Fárveik af ebólu í Lundúnum

Pauline Cafferkey er í einangrun á Royal Free sjúkrahúsinu í …
Pauline Cafferkey er í einangrun á Royal Free sjúkrahúsinu í Lundúnum. AFP

Skoskur hjúkrunarfræðingur, Pauline Cafferkey, sem smitaðist af ebólu í Síerra Leóne í desember, er fárveik, en hún var greind með ebólu á nýjan leik í vikunni. Henni er haldið í einangrun á sjúkrahúsi í Lundúnum.

Þrátt fyrir að fólk læknist af ebólu getur það borið sjúkdóminn í marga mánuði áður en sjúklingurinn nær fullum bata. Læknar eru hæfilega bjartsýnir á að Cafferkey, sem er 39 ára að aldri, nái að vinna bug á sjúkdómnum. Læknir hennar segir að hún hafi haft betur síðast og ekkert sem komi í veg fyrir að hún geri það á nýjan leik.

Cafferkey barðist fyrir lífi sínu í byrjun árs en henni var haldið í einangrun í heilan mánuð á Royal Free-sjúkrahúsinu í Lundúnum. Hún var flutt þangað aftur í nótt eftir að hafa leitað læknisaðstoðar á sjúkrahúsi í Glasgow á þriðjudag er ebólueinkennin tóku sig upp á nýjan leik.

BBC segja að vinnufélagar Cafferkey lýsi því hversu ástríðufull hún er fyrir starfi sínu og því hlutverki sem hún gegndi á heilsugæslustöð í bænum Kerry í Síerra Leóne þar sem ebólusjúklingum var sinnt.

Dagblaðið Scotsman birti brot úr dagbók hennar á sínum tíma þar sem hún lýsti því hvernig vinnan sem hún sinnti varð fljótt að daglegri rútínu. En sumar vaktir hafi verið erfiðari en aðrar og tók hún sem dæmi þegar hún þurfti að segja ungum dreng, sem hafði misst föður sinn úr ebólu, að móðir hans og systir væru einnig látnar úr ebólu.

„Móðir hans hafði horft á dóttur sína deyja í rúminu við hliðina á sér þennan morgun og hún dó sjálf nokkrum klukkustundum síðar,“ segir í dagbókarbrotinu.

Frétt BBC 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert