Hver framdi árásina í Ankara?

Stjórnvöld í Tyrklandi segja að nokkrir hópar geti komið til greina varðandi ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárásunum sem urðu 95 manns að bana í Ankara í gær. Hér gefur að líta stutt yfirlit yfir þá sem ríkisstjórnin telur líklega til að bera ábyrgð á árásunum.

Rannsóknir beinast nú í fyrstu aðallega að jíhadistum úr röðum Ríkis íslams samkvæmt heimildum AFP. Ríkisstjórnin hefur þó ekki viljað staðfesta þær fregnir.

Í dag var greint frá því að 95 hafi látið í sprengju­árás­inni en sprengj­urn­ar tvær sprungu rétt eft­ir klukk­an 10 í gær­morg­un að staðar­tíma. Þar að auki eru 508 særðir og af þeim eru 160 enn á sjúkra­húsi og 19 á gjör­gæslu­deild­um.

Forsætisráðherrann Ahmet Davutoglu segir að meðal þeirra aðila sem gætu reynst ábyrgir séu Ríki íslams, PKK - Verkamannaflokkur Kúrdistans, og vinstriflokkurinn DHKP-C.

Árás gærdagsins kom í kjölfar margra mánaða ofbeldisöldu þar sem allir þrír hóparnir stóðu fyrir voðaverkum. Ríkir því óvissa um hver beri í raun ábyrgð í þetta sinn.

Risavöxnum kúrdískum fána haldið á lofti fyrir utan sendiskrifstofur Kúrda …
Risavöxnum kúrdískum fána haldið á lofti fyrir utan sendiskrifstofur Kúrda í París í dag. AFP

Ríki íslams

Ríkisstjórnin kenndi samtökunum um sjálfsmorðssprengjuárás þann 20. júlí í landamærabænum Suruc, sem varð 33 manns að bana.

Sjá frétt mbl.is: Morðinginn var tvítugur háskólanemi

Ríki íslams hefur lagt undir sig mikil svæði í nágrannalöndunum Írak og Sýrlandi og þurftu Tyrkir lengi að þola gagnrýni annarra NATO-ríkja vegna aðgerðaleysis gegn samtökunum.

Nú hafa Tyrkir hins vegar gengið að fullu til liðs við bandalagið sem undir forystu Bandaríkjamanna berst gegn Ríki íslams í heimshlutanum. Hafa þeir meðal annars leyft herþotum Bandaríkjanna að nýta herstöð í bænum Incirlik í suðurhluta landsins, en stöðin gegnir lykilhlutverki í baráttunni.

Í kjölfarið hefur þó ríkt ótti um að Ríki íslams muni taka til hefnda vegna þessarar ákvörðunar Tyrkja. Heimildir herma að sérfræðingar telji sprengjurnar tvær, sem notaðar voru í gær, svipa mjög til þeirrar sem notuð var í Suruc í júlí.

Aðstandendur syrgja fórnarlamb árásarinnar í jarðarför sem fór fram í …
Aðstandendur syrgja fórnarlamb árásarinnar í jarðarför sem fór fram í dag. AFP

Verkamannaflokkur Kúrdistans - PKK

Flokkurinn kenndi ríkisstjórninni um árásina í Suruc og hóf þá árásir á öryggissveitir Tyrkja eftir að vopnahlé hafði ríkt þeirra á milli í tvö ár. Samkvæmt ríkisfjölmiðlum landsins hafa meira en 140 liðsmenn öryggissveitanna látist síðan þá vegna árásanna.

Fjölmiðlar fylgjandi ríkisstjórninni hafa gefið í skyn tengsl flokksins við árásina í gær. Aftur á móti voru kúrdískir aðgerðasinnar meðal þeirra sem tóku þátt í friðarsamkomunni þar sem sprengingarnar áttu sér stað.

Þá gaf flokkurinn frá sér tilkynningu í gær um einhliða vopnahlé, þar sem hann myndi aðeins beita árásum til að verjast öðrum.

Fólk bíður fyrir utan líkhús á sérstöku svæði ætluðu aðstandendum …
Fólk bíður fyrir utan líkhús á sérstöku svæði ætluðu aðstandendum þeirra sem fórust í árásinni í gær. AFP

Frelsunarfylking alþýðunnar - DHKP-C

Þessi öfgakenndi vinstriflokkur hefur lýst yfir ábyrgð á röð árása í Tyrklandi undanfarna mánuði, þar á meðal skotárás á bandaríska sendiráðið í Ístanbúl. Flestar þeirra hafa þó verið lítils háttar og jafnvel viðvaningslegar, samkvæmt fréttaritara AFP í Tyrklandi.

Sjá frétt mbl.is: Grunuð um aðild að hryðjuverkum

Flokkurinn hefur það markmið að hrinda af stað marxískri byltingu í landinu og er í harðri andstöðu við vestræn áhrif og ítök Atlantshafsbandalagsins.

Forsætisráðherra Tyrkja, Ahmet Davutoglu, og Kemal Kilicdaroglu leiðtogi CHP, stærsta …
Forsætisráðherra Tyrkja, Ahmet Davutoglu, og Kemal Kilicdaroglu leiðtogi CHP, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, ræðast við á fundi í dag. AFP

„Mafíuríkið“

Leiðtogi alþýðuflokksins HDP, Selahattin Demirtas, sagði ábyrgðina vera hjá „mafíuríkinu“ og „viðhorfi ríkis sem hagar sér líkt og raðmorðingi“. Vaxandi spenna er í landinu í aðdraganda kosninga þann 1. nóvember og óttast flokkurinn að ríkisstjórnin muni þá reyna að hagnast á óróanum eftir árásina.

Margir Tyrkir hræðast þær aðgerðir sem leynilegu öryggissveitirnar, einnig þekktar sem „dökka ríkið“, gætu framið. Ríkisstjórnin hefur þó reiðilega gert lítið úr öllum ásökunum í sinn garð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert