Mikil óánægja meðal þingmanna

Íranska ríkissjónvarpið sýndi ekki frá atkvæðagreiðslu um samkomulag Íran og Vesturveldanna um kjarnorkuáætlun fyrrnefnda sem fram fór á íranska þinginu í dag en aðrir fjölmiðlar hafa lýst því sem fram fór.

Nokkrir þingmenn hrópuðu að áhyggjur þeirra hefðu ekki verið ræddar og þá birtist mynd af Hamid Rasaie á samskiptamiðlum, þar sem hann heldur á blaði sem á stendur að samkomulagið brjóti gegn lögum, en Rasaie er harður gagnrýnandi samkomulagsins.

Annar íhaldssamur þingmaður, Mehdi Kouchakzadeh, gagnrýndi að forseti þingsins hefði ekki hleypt honum að. Þá var upplýst að einn þingmaður hefði hótað morði vegna málsins.

Gagnrýnendur samkomulagsins, þeirra á meðal stjórnvöld í Ísrael og bandarískir þingmenn, segja að það muni efla áhrif Íran og að markmiðum þess verði ekki náð; þ.e. að það muni ekki hindra Írana í því að eignast kjarnorkuvopn.

Fregnir herma að Hassan Rouhani, forseti Íran, hyggist tjá sig við íranska ríkissjónvarpið í dag. Hann og aðrir embættismenn hafa verið harðlega gagnrýndir heima fyrir vegna viðræðanna við Bandaríkin og aðra aðila að samkomulaginu.

Rouhani hefur sagt að samkomulagið tryggi kjarnorkuáætlun landsins á sama tíma og það greiði fyrir afléttingu refsiaðgerða, en atkvæðagreiðslan í dag leiddi í ljós að djúpstæður ágreiningur er enn um málið á íranska þinginu.

Ali Akbar Salehi, framkvæmdastjóri írönsku kjarnorkustofnunarinnar, sagði í dag að einn þingmanna hefði hótað að drepa sig.

Frétt mbl.is: Samþykktu kjarnorkusamninginn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert