Samþykktu kjarnorkusamninginn

Íranska þingið samþykkti í morgun kjarnorkusamninginn sem ríkið gerði við helstu ríki heims fyrr á árinu og lýkur þar með deilum innanlands um samkomulagið. Nú bíður samningurinn formlegrar viðurkenningar.

Alls greiddi 161 þingmaður atkvæði með samningnum, 59 voru á móti og 13 sátu hjá, samkvæmt frétt IRNA ríkisfréttastofunnar.

Samkomulagið felur í sér að Íranar hægi á kjarnorkutilraunum sínum og minnki birgðir sínar af auðguðu úrani. Í staðinn verður refsiaðgerðum aflétt. 

Sexveldin svokölluðu, Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskaland auk Rússlands og Kína, tóku þátt í viðræðunum við Írana um kjarnorkuáætlunina sem vesturveldin álíta að beinist að smíði kjarnorkuvopna.

Minna úran og færri skilvindur

Íranar féllust á að minnka næstu 15 árin um 98% birgðir sínar af auðguðu úrani en efnið er hægt að nota í kjarnorkuvopn. Einnig munu þeir fækka um tvo þriðju skilvindum sem notaðar eru til að auðga úran. Þær verða framvegis liðlega 5.000, aðallega í Natanz-rannsóknastöðinni. Alþjóðlegt eftirlit verður haft með skilvindunum.

Olía og vopn

Álitið er að þær takmarkanir sem settar hafa verið á úranbirgðir og skilvindufjölda valdi því að Íranar þyrftu a.m.k. eitt ár til að smíða kjarnorkusprengju, færi svo að þeir stæðu ekki við samninginn og hann félli því úr gildi.

 Alþjóðlegar viðskiptarefsingar gegn Írönum verða afnumdar. Þeir munu því geta selt olíu og gas á heimsmörkuðum og byrjað aftur að nota þjónustu alþjóðlega bankakerfisins. Íran er eitt af mestu olíuríkjum heims og því ljóst að samningurinn getur haft mikil áhrif á orkuviðskipti í heiminum. Verðfall varð á olíu á mörkuðum strax í gær.

 Bannið gegn vopnasölu til Írana verður afnumið í áföngum. Frekari þróun mun fara að verulegu leyti eftir því hvort Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, meti það svo að kjarnorkurannsóknir Írana beinist nú eingöngu að friðsamlegri hagnýtingu orku, eins og ráðamenn í Teheran hafa ávallt fullyrt.

Fari svo að alþjóðleg nefnd komist að þeirri niðurstöðu að Íranar standi ekki við ákvæði samningsins verður hægt að koma í snatri aftur á refsiaðgerðum. Í nefndinni sitja fulltrúar sexveldanna auk Írans. En atkvæði meirihlutans, þ.e. fjögur af sjö, duga til að samþykkja slíka ákvörðun.

Loks má geta þess að tímabundið bann verður við því að Íranar geti áfram þróað sprengiodda á eldflaugar og gert tilraunir með ýmiss konar hátæknibúnað fyrir kjarnorkuvopn. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert