Yfirmenn lögreglunnar í Ankara reknir

Lögreglustjórinn í Ankara og tveir háttsettir lögregluforingjar hafa verið reknir úr starfi í kjölfar sprengjutilræða í borginni á laugardag sem kostuðu 96 lífið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir að væntanlega megi rekja árásirnar til þess að öryggisgæslu var ábótavant í höfuðborginni.  Árásirnar hafa verið vatn á myllu andstæðinga Erdogan og ríkisstjórnar Tyrklands en tveir menn sprengdu sig upp í friðargöngu í Ankara á laugardag.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að lögreglustjórinn í Ankara, Kadri Kartal, sem og yfirmaður öryggislögreglunnar og leyniþjónustu borgarinnar hafi verið reknir. Er það gert til þess að tryggja að rannsókn á árásunum fái eðlilega málsmeðferð.

Enn er ekki vitað hverjir stóðu á bak við árásirnar en stjórnvöld í Tyrklandi segja að grunur þeirra beinist að liðsmönnum Ríkis íslams. 

Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, sagði í fyrradag að talið væri líklegast að Ríki íslams stæði á bak við árásirnar. Hann bætti þó við að yfirvöld teldu einnig hugsanlegt að Verkamannaflokkur Kúrda, PKK, eða vinstriöfgaflokkurinn DHKP-C stæði á bak við árásirnar.

Engin hreyfing hefur lýst sprengjuárásunum á hendur sér. Tyrkneskir fjölmiðlar segja að grunur leiki á að annar árásarmannanna sé bróðir manns sem gerði sprengjuárás í landamærabænum Suruc í júlí þegar 32 ungir tyrkneskir Kúrdar biðu bana. Tyrknesk stjórnvöld sökuðu Ríki íslams um ódæðið.

Davutoglu forsætisráðherra sagði að talið væri að árásirnar í Ankara hefðu verið gerðar í þeim tilgangi að hafa áhrif á þingkosningar sem boðað hefur verið til 1. nóvember vegna þess að enginn flokkur gat myndað meirihlutastjórn eftir kosningar sem voru haldnar í júní. Margir þeirra sem létu lífið í sprengjuárásunum í Ankara voru í flokknum HDP sem styður Kúrda, en hann komst yfir 10% fylgisþröskuldinn sem þarf að ná til að koma mönnum á þing í kosningunum í júní. Flokkur Receps Tayyips Erdogan forseta missti þá meirihluta sinn á þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert