„Stór, herra, stór“

Joaquin Guzman Loera, eða öðru nafni
Joaquin Guzman Loera, eða öðru nafni "el Chapo Guzman". AFP

Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquín Archivaldo Guzmán flúði á ævintýralegan hátt úr mexíkósku fangelsi í sumar en nú hefur verið birt myndskeið sem sýnir að það liðu 26 mínútur frá því hann flúði þar til fangaverðir áttuðu sig á flóttanum.

Það er mexíkóska sjónvarpsstöðin Televisa sem hefur birt myndskeiðið þar sem óheppinn fangavörður sést greina frá því að það sé stór hola í klefa Guzmáns en minnist ekki á það einu orði að fanginn sé ekki á sínum stað. Guzmán hefur verið á flótta síðan hann lét sig hverfa í gegnum göng í sturtuaðstöðu klefa síns 11. júlí sl.

Holan í sturtunni reyndist vera inngangur að 1,5 km löngum göngum sem enduðu fyrir utan veggi fangelsisins. Í myndskeiðinu sést fangavörðurinn standa fyrir utan klefann og kalla ítrekað „Guzmán, Guzmán?“ án þess að fá svar.

Hann lætur yfirmann sinn vita og segir að það sé hola í frárennsli sturtunnar. Yfirmaður hans spyr hversu stór hún sé og fær það svar:„Stór, herra, stór.“

Það er ekki fyrr en þá sem yfirmaður hans segir: „Bíddu og er fanginn ekki þarna?. Nei herra hann er ekki hér,“ svarar vörðurinn.

Í myndskeiðinu sem Televisa birtir sjást myndir úr öryggismyndavélum í klefa Guzmáns og frá miðstöðinni þar sem fangaverðirnir fylgdust með föngunum. Áður en Guzmán flýr heyrast hávær hamarshögg og Guzmán hækkar í sjónvarpinu til þess að reyna að draga athyglina frá höggunum. Þó svo það heyrist hljóð frá bor virðist það ekki hafa nein áhrif á fangaverðina sem sitja rólegir og stara á skjá eftirlitsmyndavélanna. Þeir virðast heldur ekki taka eftir neinu þegar Guzmán hverfur á bak við lágan vegg sem er á milli sturtunnar og svefnaðstöðunnar í klefanum.

Hann sést fara á klósettið, rannsaka sturtusvæðið og síðan klæða sig í skó. Flótti Guzmáns þykir mikið hneyksli fyrir ríkisstjórn Mexíkó en þetta er í annað skiptið sem Guzmán strýkur úr öryggisfangelsi í heimalandinu.

Tugir hafa verið handteknir í tengslum við flóttann þar á meðal margir fangaverðir og fangelsisstjórinn.

Frétt BBC


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert