Gamlar tennur segja nýja sögu

Tennurnar sem fundust í Fuyan-helli. Engu munaði að ekkert yrði …
Tennurnar sem fundust í Fuyan-helli. Engu munaði að ekkert yrði af fundinum. AFP/Nature

Tennur sem fundist hafa í suðurhluta Kína benda til þess að maðurinn hafi farið frá Afríku allt að 70.000 árum fyrr en áður var talið. Nýleg rannsókn bendir til að tegundin homo sapiens hafi náð til Kína fyrir um 80.000 til 120.000 árum, en niðurstöðurnar kunna að kollvarpa kenningum um útbreiðslu tegundarinnar.

„Samkvæmt því líkani sem menn eru almennt ásáttir um fór nútímamaðurinn frá Afríku fyrir aðeins 50.000 árum,“ segir Maria Martinon-Torres, vísindamaður við University College London, sem er einn höfunda rannsóknarinnar. „Í þessu tilfelli höldum við því fram að homo sapiens hafi breiðst út utan Afríku mun fyrr,“ sagði hún í samtali við Nature.

Sú leið sem tegundin valdi er óþekkt en eldri rannsóknir hafa gefið vísbendingar um að líkleg leið frá Austur-Afríku til austurhluta Asíu hafi legið um Arabíuskaga og Mið-Austurlönd.

Í niðurstöðum hinnar nýju rannsóknar felst að nútímamaðurinn, sem talinn er hafa komið fram í Afríku fyrir um 200.000 árum, hafi náð til Kína áður en hann fór til Evrópu. Engin sönnunargögn styðja að homo sapiens hafi fundist í Evrópu fyrir meira en 45.000 árum, en það þýðir að tegundin hafi verið í Kína í um 40.000 ár áður en hún breiddi úr sér norður á bóginn.

Hinar 47 tennur sem fundust í hnédjúpu lagi af gráum sandleir í Fuyan-helli nærri bænum Daoxian, líkjast tönnum í „samtímamönnum“, segir í rannsóknarniðurstöðum. Tennurnar gætu aðeins hafa komið úr einstaklingum sem fluttust frá Afríku, ekki úr tegund sem þróaðist út frá öðrum tegundum, á borð við hina útdauðu homo erectus.

Vísindamennirnir fundu einnig leifar 38 spendýra á vettvangi, þeirra á meðal leifar fimm útdauðra tegunda, en ein þeirra reyndist stærri ættingi risapöndunnar.

Engin verkfæri fundust og að sögn Wu Liu, frá kínversku vísindaakademíunni í Peking, benda aðstæður til þess að menn hafi ekki haft búsetu í hellinum.

Því ekki til Evrópu?

Elstu ummerki um nútímamanninn austan Arabíuskaga voru fram til þessa leifar sem fundust í Tianyuan-helli nærri Peking. Þær voru taldar um 40.000 ára gamlar. Hinar nýju vísbendingar vekja þá spurningu hvers vegna það tók homo sapiens svo langan tíma að ná útbreiðslu til Evrópu.

„Af hverju tók það nútímamanninn, sem var þegar við hliðið, svo langan tíma að komast inn í Evrópu?“ spyr Martinon-Torres.

Rannsakendurnir hafa varpað fram tveimur mögulegum ástæðum.

Önnur er tilvist neanderthal-mannsins. Þrátt fyrir að sú tegund hafi orðið útdauð var hún útbreidd um álfuna þar til fyrir um 50.000 árum. Að sögn Martinon-Torres er viðtekna hugmyndin sú að homo sapiens hafi tekið yfir af neanderthal-manninum, en ef til vill hafi síðarnefnda tegundin myndað nokkurs konar náttúrulegan tálma og Evrópa verið of smá fyrir báðar tegundir.

Hin ástæðan sem vísindamennirnir horfa til er kuldi. Allt þar til síðasta ísöld rann sitt skeið fyrir um 12.000 árum voru stórir hlutar Evrópu þaktir íshellu, og álfan því ekki ákjósanleg heimkynni fyrir nýja tegund frá hinni tiltölulega hlýju Austur-Afríku.

Homo sapiens á uppruna sinn að rekja á eða nærri hitabeltinu og því er skiljanlegt að dreifing tegundarinnar hafi verið í austur frekar en norður, þar sem hitastig féll hratt undir frostmark á veturna,“ segir Robin Dennell við University of Exeter.

Kort og myndir af Fuyan-helli.
Kort og myndir af Fuyan-helli. AFP/Nature

Misstu næstum því tennurnar

Martinon-Torres segir mörgum spurningum ósvarað, til dæmis um uppruna samfélaganna og örlög. Þá spyr hún hvort mögulega sé um að ræða forfeður annarra samfélaga sem fóru til Evrópu. Martinon-Torres segir að mögulega hafi leiðirnar frá Afríku verið margar og flutningarnir margvíslegir.

Fyrir utan hina útdauðu pöndutegund ailuropoda baconi, fundu vísindamenn einnig útdauðan ættingja hýenunnar. Þá fundust einnig leifar fílslegrar tegundar að nafni stegodon orientalis og stórvaxinn tapír, en þær tegundir kunna að hafa verið á lífi þegar Kínverjar hófu að skrifa fyrir um 3.500 árum.

Það munaði litlu að tennurnar færu framhjá vísindamönnum, að sögn Wu.

Hann og kollegar hans uppgötvuðu hellinn og dýraleifarnar á níunda áratug síðustu aldar en höfðu ekki hugmynd um að í honum væri einnig að finna mannaleifar. Tuttugu og fimm árum seinna, þegar Wu heimsótti staðinn á ný, fékk hann hugboð um að menn kynnu að hafa dvalið í hellunum og fimm ára uppgröftur var hafinn. Þá fundust tennurnar.

mbl.is