Njósnuðu um FBI og UNICEF

AFP

Þýska leyniþjónustan njósnaði um utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, bandarísku alríkislögregluna (FBI) og UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur fram í fréttum þýskra fjölmiðla í dag. 

Talið er að fréttin verði eins og olía á eld þeirra sem gagnrýna eftirlit þýska ríkisins en harkalega hefur verið tekist á um það eftir að Edward Snowden birti upplýsingar um slíkt eftirlit bandaríska ríkisins.

Ásakanirnar eru afar vandræðalegar fyrir kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, sem hefur gagnrýnt bandarísk yfirvöld fyrir að njósna um vini sína og vísaði þar til þess að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hleraði farsíma hennar.

Samkvæmt frétt RBB Inforadio var njósnað um Evrópudómstólinn og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina auk fleiri stofnana og einstaklinga. Á listanum eru fjölmörg evrópsk og bandarísk fyrirtæki, meðal annars vopnaframleiðendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert