Árásirnar fordæmdar um allan heim

„Við munum kosta öllu til þess að vinna með frönsku þjóðinni og öllum þjóðum um heim allan að því að þessir hryðjuverkamenn fái makleg málagjöld og ráðast gegn hverju þeim hryðjuverkasamtökum sem ráðast á fólkið okkar,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, meðal annars í ávarpi frá Hvíta húsinu í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París, höfuðborg Frakklands, í gærkvöldi.

Þjóðarleiðtogar um allan heim hafa fordæmt hryðjuverkaárásirnar í París. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði við mbl.is í nótt að hugurinn væri hjá frönsku þjóðinni. Forystumenn ríkja sem sjálf hafa orðið fyrir hryðjuverkaárásum, líkt og Bandaríkjanna, Bretlands, Spánar og Indlands, voru á meðal þeirra fyrstu til þess að fordæma árásirnar. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði Breta reiðubúna að gera allt sem þeir gætu til þess að koma Frökkum til aðstoðar.

Stöndum frammi fyrir „grimmri áskorun“

 „Þetta staðfestir það að við stöndum frammi fyrir áskorun sem engin fordæmi eru fyrir, gríðarlega grimmri áskorun,“ sagði Jose Manuel Garcia Margallo, utanríkisráðherra Spánar, í kjölfar árásanna. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sagði fréttirnar frá París bæði sorglegar og hræðilegar. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hét að sama skapi fullum stuðningi Þjóðverja.

„Við munum gera allt til þess að aðstoða við að elta uppi þá sem stóðu að þessum árásum og hvöttu til þeirra og halda áfram baráttunni saman gegn þessum hryðjuverkamönnum,“ sagði Merkel. „Við vitum að frjálst líf okkar er öflugara en nokkurt hryðjuverk. Sendum hryðjuverkamönnunum þau skilaboð að við höldum örugg í gildi okkar með því að leggja áherslu á þau um alla Evrópu.“

Gærdagurinn sorgardagur fyrir allan heiminn

Forseti Írans, Hassan Rouhani, sgaði árásirnar í París árás á allt mannkynið. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði að Tyrkir skildu vel þjáningar Frakka í ljósi eigin reynslu af hryðjuverkum. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði: „Ísrael stendur við hlið Francois Hollande, forseta Frakklands, og frönsku þjóðinni í sameiginlegri baráttu okkar gegn hryðjuverkum.“

Bert Koenders, utanríkisráðherra Hollands, sagði á Twitter-síðu sinni að hann skorti orð til þess að lýsa því hversu hörmulegar árásirnar í París væru og ástralski kollegi hans Julie Bishop sagði daginn í gær sorgardag fyrir Frakkland og allan heiminn. Vivian Balakrishnan, utanríkisráðherra Singapúr, lagði áherslu á mikilvægi þess að láta ekki hryðjuverkamenn reka fleyg á milli þjóða heimsins.

Vilja alþjóðlega samstöðu gegn hryðjuverkum

Forseti Kína, Xi Jinping, fordæmdi árásirnar í París og utanríkisráðherra landsins, Hong Lei, sagði baráttuna gegn hryðjuverkum vera sameiginlega áskorun. Eyða þyrfti hryðjuverkaógninni með sameiginlegu alþjóðlegu átaki. Hryðjuverkaárásirnar voru að sama skapi meðal annars fordæmdar af stjórnvöldum í Pakistan, í Sádi Arabíu, á Filippseyjum og víðar um heiminn.

„Það er ljóst að raunverulega alþjóðlega samstöðu þarf til þess að ná árangri í baráttunni við þessa illsku,“ sagði Vladimír Pútín, forseti Rússlands og forsætisráðherra landsins, Dimitrí Medvedev, tók í sama streng. Hétu þeir fullum stuðningi Rússa í baráttunni við hryðjuverkamennina.

mbl.is