Árásirnar í París í hnotskurn

Sorg ríkir í París, höfuðborg Frakklands, eftir atburði gærkvöldsins. Árásirnar sem þá voru gerðar eru þær mestu í borginni frá síðari heimsstyrjöld. 

„Nú er þetta stríð,“ stóð á forsíðu franska dagsblaðsins Le Parisien um hryðjuverkin. Að  minnsta kosti 128 eru látnir og 99 eru alvarlega slasaðir. Mun fleiri liggja á sjúkrahúsi með minni meiðsl. 

Yfirvöld settu á útgöngubann í borginni, í fyrsta sinn frá innrás Nasista árið 1944. Enn ríkir óvissuástand. 

Svartklæddir byssumenn gerðu árásir á fimm staði í miðborginni og á íþróttaleikvanginn Stade de France, þar sem karlalið Frakka og Þjóðverja léku fótboltaleik. 

Ríki íslam hefur nú lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkunum. Í gærmorgun var gerð árás í Sýrlandi og í kjölfarið fullyrt að búið væri að fella Jihadi John, breskan ríkisborgara sem hefur verið einn helsti áróðursmeistari Ríkis íslams mánuðum saman. 

„Þetta er fyrir Sýrland,“ segja sjónarvottar að byssumennirnir hafi hrópað. 

Árásarmennirnir vörpuðu handsprengjum, notuðu AK-47 riffla og sprengdu sig svo í loft upp. Sjö af átta létust í sjálfsmorðsárásum. Sá áttundi var felldur af lögreglunni. 

Syrgjendur fyrir utan veitingastað í 10. hverfi Parísarborgar þar sem …
Syrgjendur fyrir utan veitingastað í 10. hverfi Parísarborgar þar sem ein árásin átti sér stað í gærkvöldi. AFP

Mannskæðasta árásin var gerð í Bataclan-tónleikahöllinni þar sem hundruð ungmenna voru samankomin á rokktónleikum. Tölur yfir látna eru enn á reiki. Telegraph segir að 112 hafi látist í þeirri árás, Reuters segir hina látnu 87 talsins. 

Frétt mbl.is: Blóð og lík út um allt

Byssumenn réðust inn í tónleikasalinn og hófu skothríð sem stóð í að minnsta kosti tíu mínútur. Þeir hlóðu byssur sínar trekk í trekk. Fólk reyndi að flýja en hópur manna var tekinn í gíslingu. 

Nokkur veitingahús og barir í nágrenninu voru einnig skotmörk árásarmannanna. Byssumenn réðust þar inn og hófu að skjóta í allar áttir. Norðar í borginni sprengdu þrír árásarmenn sig í loft upp fyrir utan leikvanginn þar sem Frakkar og Þjóðverjar voru að spila fótboltaleik. 

Frakklandsforseti, Francois Hollande, var á leiknum og var hann látinn yfirgefa leikvanginn hið snarasta.

Áhorfendur safnast saman á vellinum á fótboltaleikvanginum Stade de France …
Áhorfendur safnast saman á vellinum á fótboltaleikvanginum Stade de France eftir leik Frakklands og Þýskalands. Sprengjur voru sprengdar fyrir utan leikvanginn í gærkvöldi. AFP

Í kjölfarið skapaðist mikil ringulreið í borginni. Lögreglu- og sjúkrabílar fylltu götur og reynt var að komast að slösuðum til að flytja þá á sjúkrahús. 

Neyðarástandi var í kjölfarið lýst yfir og stendur enn. Seinkunn hefur orðið á flugsamgöngum þar sem öryggiseftirlit hefur verið hert til muna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert