Ríki íslam lýsir yfir ábyrgð

Réttarmeinafræðingar að störfum á Cafe Bonne Biere, veitingastað í París …
Réttarmeinafræðingar að störfum á Cafe Bonne Biere, veitingastað í París þar sem ein árásin var gerð í gær. AFP

Ríki íslam hefur lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkunum í París.  „Átta bræður með sprengjubelti og riffla“ framkvæmdu „blessaða árás,“ segir í yfirlýsingu samtakanna, samkvæmt frétt AFP. Yfirlýsingin var gefin út bæði á frönsku og arabísku og í henni er frekari árásum hótað.

128 eru látnir og um 100 liggja alvarlega sárir á sjúkrahúsi. Stuttu áður hafði Francois Hollande Frakklandsforseti kennt samtökunum um verknaðinn og hótað þeim stríði. Að minnsta kosti átta vígamenn, klæddir sprengjuvestum, fóru inn á veitingastaði, að íþróttaleikvangi og í tónlistarhús og réðust gegn óbreyttum borgurum í gærkvöldi. Í yfirlýsingu Ríkis íslams segir að skotmörkin hafi verið vandlega valin.

Árásin er sú mannskæðasta í Evrópu frá sprengjuárásinni í Madrid árið 2004.

Frétt mbl.is: Árásirnar í París í hnotskurn

Allir franskir sérfræðingar um hryðjuverkastarfsemi höfðu búist við meiriháttar hryðjuverkaárás í landinu. Höfðu her- og lögregla með margvíslegum hætti búið sig undir árás sem þær sem áttu sér stað í París í gærkvöldi.

„Það sem gerðist í París er eiginlega æðsta stig þess sem leyniþjónustan hafði óttast,“ segir Bernard Squarcini, fyrrverandi yfirmaður frönsku gagnnjósnaþjónustunnar, við blaðið Le Figaro í dag. 

„Í ljósi reynslu annarra hafði Frakkland undirbúið sig,“ bætir Squarcini við í umfjöllun blaðsins um árásirnar sem flestir málsmetandi menn eru sagðir hafa talið yfirvofandi.

Franskir lögreglumenn stöðva og skoða bíla á Evrópubrúnni milli Strasbourg …
Franskir lögreglumenn stöðva og skoða bíla á Evrópubrúnni milli Strasbourg í Frakklandi og Kehl í Þýskalandi í morgun. mbl.is/afp

Dómarinn Marc Trévedic, sem starfaði hjá dómstól er sérhæfður er til að fást við hryðjuverkamál, varaði sömuleiðis við yfirvofandi hættu er hann lét af störfum sakir aldurs 30. september. Virðist hann óvenjufljótt hafa reynst sannspár.

„Ég er sannfærður um að liðsmenn Daech (Ríkis íslam) hafa bæði metnað og búnað til að láta mun skæðar að sér kveða með aðgerðum sem að umfangi verða ekkert í líkingu við það sem við höfum séð hingað til. Framundan eru mun myrkari dagar fyrir okkur. Stríðið sem Ríki íslams ætlar að heyja hér í landi er ekki ennþá hafið,“ sagði Trévedic.
 
Yves Trotignon, fyrrverandi yfirmaður DGSE, sem fæst við baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi, segir að því fleiri franskir borgarar sem öðlist reynslu í aðgerðum Ríkis íslam í Sýrlandi, Líbýu og Jemen því meiri hætta á stórtækari hryðjuverkum. Vitað er um 571 djíhadista sem barist hafa í Sýrlandi með sveitum ríkis íslam. Þeim er líkt við tifandi sprengjur snúi þeir aftur til baka.

Borgari heldur á blómum og ræðir við lögreglumenn sem standa …
Borgari heldur á blómum og ræðir við lögreglumenn sem standa vörð víðsvegar um Parísarborg í dag. AFP
mbl.is