Bróðir árásarmanns: „Það er brjálað, klikkað“

Kona við japanska veitingastaðinn La Belle Equipe', Rue de Charonne, …
Kona við japanska veitingastaðinn La Belle Equipe', Rue de Charonne, þar sem fjöldi fólks var myrtur af árásarmönnunum. AFP

Nafn eins árásarmannanna sem tóku 129 líf í París á föstudag hefur verið birt í frönskum fjölmiðlum. Er það hinn 29 ára gamli Omar Ismaïl Mostefai, franskur maður af alsírskum uppruna, frá úthverfinu Courcouronnes í París. Lögregla hafði veitt honum athygli áður vegna tengsla við öfgafulla íslamstrú en hann hafði aldrei verið tengdur við hryðjuverkastarfsemi. Fregnir herma að borin hafi verið kennsl á Mostefai með fingrafari sem fannst í eða við tónleikastaðinn Bataclan þar sem stærstur hluti fórnarlambanna lét lífið.

Eldri bróðir Mostefai, faðir hans og ónefnd kona eru sögð hafa verið færð í gæsluvarðhald og leitað hefur verið á heimilum þeirra. Segir Guardian alls sex ættingja hans í gæsluvarðhaldi lögreglu. Bróðirinn tjáði AFP að hann hefði ekki verið í sambandi við yngri bróður sinn árum saman.

„Það er brjálað, klikkað. Ég var sjálfur í París í gær, ég sjá hverskonar óreiða þetta var.“

Bróðirinn, sem gaf sig sjálfur fram við lögreglu, sagði AFP að síðast þegar hann hefði heyrt frá Mostefai hefði hann verið á leið til Alsír með fjölskyldunni sinni og „litlu stelpunni“ sinni. „Það er langt síðan ég hef fengið einhverjar fréttir,“ bætti hann við. „Ég hef hringt í móður mína, hún virtist ekki vita neitt.“

Frá minningarathöfn í San Fransisco.
Frá minningarathöfn í San Fransisco. AFP

Fjöldi mögulegra vitorðsmanna handtekinn

Útvarpsstöðin Europe 1.fr. segir flóttabíl sem árásarmennirnir notuðu við voðaverkin fundinn í úthverfi Parísar.

Þrír hafa verið handteknir á landamærunum við Belgíu samkvæmt ákæruvaldinu í París og eins hafa belgísk lögregluyfirvöld handtekið þrjá eftir fjölda húsleita í Brussel.

Rannsóknaraðilar í Frakklandi, Belgíu, Grikklandi og Þýskalandi vinna að því að bera kennsl á árásarmennina og tengslanet þeirra en ráðherra í ríkisstjórn Grikklands hefur m.a. sagt að handhafi sýrlensks vegabréf sem fannst við Stade de France, þjóðarleikvang Frakka, hafi farið um landið á leið sinni til Evrópu.

Þá telja yfirvöld í München í Þýskalandi líklegt að 51 árs karlmaður sem handtekinn var í nágrenni austurrísku landamæranna hinn 5. nóvember hafi ætlað að koma vopnum og sprengiefnum til árásarmannanna. Samkvæmt The Guardian fundu lögreglumenn skammbyssu undir vélarhlíf bíls hans sem leiddi til þess að bifreiðin var tekin í sundur. Fundust sjálfvirk vopn, 200 g af dýnamíti, handsprengjur og skotfæri. Rannsókn á farsíma og gps-tæki hins grunaða gaf til kynna að hann væri á leið til Parísar.

Fjöldi minningar- og samstöðuathafna hefur átt sér stað um allan heim síðastliðinn sólarhring. Í dag munu fara fram sérstakar athafnir í Notre Dame og kirkjum viðar um Frakkland til minningar um fórnarlömbin auk þess sem sérstök messa fyrir ættingja og vini fórnarlamba árásanna fer fram kl. 18:30 í kvöld að staðartíma.

Fjöldi götulistaverka tileinkuðum fórnarlömbunum hefur litið dagsins ljós í París.
Fjöldi götulistaverka tileinkuðum fórnarlömbunum hefur litið dagsins ljós í París. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert