Segjast hafa drepið Norðmann

Norðmaðurinn Ole Johan Grimsgaard-Ofstad fór yfir landamærin frá Tyrklandi til …
Norðmaðurinn Ole Johan Grimsgaard-Ofstad fór yfir landamærin frá Tyrklandi til Sýrlands í janúar, segir í frétt Aftenposten. Skjáskot/Aftenposten

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams halda því fram að þau hafi tekið tvo gísla, Norðmann og Kínverja, af lífi. Í frétt AP-fréttastofunnar er haft eftir samtökunum að þau hafi krafist lausnargjalds fyrir gíslana tvo fyrir tveimur mánuðum síðan.

Fréttir mbl.is: Norðmaður í haldi Ríkis íslams

Frétt mbl.is: Eiga ekki fyrir lausnargjaldinu

Í tímariti sem samtökin eru sögð hafa gefið út í dag er sagt frá þessu og einnig birt mynd af líkum sem sögð eru vera af gíslunum. Svo virðist sem þeir hafi verið skotnir til bana. 

Í þessu sama tímariti, sem heitir Dabiq, er birt mynd af sprengju sem er sögð vera sú sem grandaði rússnesku farþegaþotunni á leið frá Egyptalandi í síðasta mánuði. 

Norðmaðurinn hét, að því er fram kemur í blaðinu, Ole Johan Grimsgaard-Ofstad og var 48 ára. Hann var frá Ósló.

Kínverjinn hét Fan Jinghui og var 50 ára. Hann var ráðgjafi frá Peking. Ekki kemur fram hvenær eða hvar mennirnir voru teknir í gíslingu en í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK, segir að mönnunum hafi verið rænt í Sýrlandi fyrr á þessu ári.

Helsta umráðasvæði Ríkis íslams er á ákveðnum svæðum í Írak og Sýrlandi. Hvernig tilkynnt er um aftöku mannanna og að krafist hafi verið lausnargjalds í peningum, er úr takti við hvernig hryðjuverkasamtökin hafa starfað hingað til. Aukinn þungi hefur færst í loftárásir á vígi samtakanna síðustu daga. 

Norska utanríkisráðuneytið hefur ekki staðfest þessar fréttir. 

Ætluðu að ráðast á aðra vél

Í tímaritinu Dabiq sem er á ensku og gefið út á netinu, segir um árásina á farþegaþotuna að Ríki íslams hafi í fyrstu ætlað að sprengja flugvél sem tilheyrði einu þeirra landa sem taka þátt í árása bandamanna, undir stjórn Bandaríkjamanna, á vígi samtakanna í Írak og Sýrlandi.

En svo ákváðu vígamennirnir að ráðast frekar á rússneska flugvél eftir að stjórnvöld í Moskvu hófu loftárásir á Sýrland í lok september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert