Ebóla greind í Líberíu

Nýju tilfellin hafa ekki dregið úr vonum manna um að …
Nýju tilfellin hafa ekki dregið úr vonum manna um að sigur muni vinnast á ebólunni í Vestur-Afríku. AFP

Þrír meðlimir sömu fjölskyldu í Líberíu hafa greinst með ebólu, tveimur mánuðum eftir að landið var lýst ebólulaust í annað sinn. Tilfellin voru staðfest eftir að 15 ára drengur með ebólueinkenni; hita, slappleika og blæðingar, var lagður inn á sjúkrahús í Monróvíu.

New York Times hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni að drengurinn hafi byrjað að sýna einkenni veirunnar í síðustu viku en að hann hafi verið lagður inn á miðvikudag. Faðir hans og bróðir hafa einnig greinst með sjúkdóminn en heimildarmaðurinn segir að minnsta kosti sjö heilbrigðisstarfsmenn hafa komið að umönnun táningsins án viðeigandi hlífðarbúnaðar.

Móðir drengsins og tveir aðrir bræður, 2 mánaða og 5 ára, hafa verið fluttir á sjúkrahúsið þar sem rannsóknir standa yfir. Þá voru tveir til viðbótar, ótengdir fjölskyldunni, lagðir inn í dag vegna gruns um ebólusmit.

Fregnum ber ekki saman um hvort drengurinn sótti skóla eftir að hann varð smitbær. Aðstoðarskólastjóri skólans hefur sagt að drengurinn hafi ekki mætt í þrjár vikur en heimildarmaður New York Times segir vísbendingar um að skólayfirvöld séu að reyna að firra sig ábyrgð. Fullyrðingar þeirra eru ekki í samræmi við frásögn foreldra drengsins.

Dr. Bruce Aylward, sérlegur fulltrúi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) vegna ebólu, segir að nýju tilfellin dragi ekki úr vonum manna  um að útrýming ebólunnar í Vestur-Afríku sé yfirvofandi.

WHO lýsti Sierra Leone ebólulaust fyrir tveimur vikum og síðasti þekkti ebólusjúklingurinn í Gíneu var útskrifaður á mánudag.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert