Saka ríkisstjórnina um valdarán

Beata Szydlo, nýr forsætisráðherra Póllands.
Beata Szydlo, nýr forsætisráðherra Póllands. AFP

Hætta er á að stjórnlagadómstóll og leyniþjónusta Póllands verði að pólitískum tækjum í höndum nýrrar ríkisstjórnar, að mati stjórnmálaskýrenda. Breytingar sem ríkisstjórnin hefur gert á skipan dómstólsins hefur meðal annars valdið áhyggjum Evrópuráðsins og hvatti mannréttindastjóri þess þingmenn til að hafna þeim.

Eftir að ríkisstjórn hægriflokksins PiS tók við völdum eftir kosningarnar sem fóru fram 25. október skipti forsætisráðherrann Beata Szydlo út fjórum æðstu yfirmönnum leyniþjónustu og gagnnjósnaþjónustu landsins. Liðsmenn stjórnarandstöðuflokksins PO kölluðu mannabreytingarnar „valdarán“.

Á fimmtudag, aðeins þremur dögum eftir að ríkisstjórnin tók formlega við völdum, gerði meirihlutinn breytingar á stjórnlagadómstól landsins. Þær voru harðlega gagnrýndar af stjórnarandstöðunni og tóku margir þingmenn hennar ekki þátt í atkvæðagreiðslu um þær í mótmælaskyni.

Lagabreytingin þýðir að hægt er að velja fimm nýja dómara í dómstólinn þrátt fyrir að síðasta þing hafi áður valið fimm aðra. Stanislaw Mocek, stjórnmálafræðingur við pólsku vísindaakademíuna, segir breytingar nýju ríkisstjórnarinnar dæmi um „gerræðislegt lýðræði“ þar sem þeir sem hafi meirihluta hafi alltaf rétt fyrir sér. Breytingar á stjórnlagadómstólnum hafi verið gerðar í því skyni að koma í veg fyrir að nokkur getið stöðvað áform ríkisstjórnarinnar.

„Breytingar á samsetningu stjórnlagadómstólsins sem verið er að hraða í gegnum pólska þingið grafa undan lögum og reglu og þær ætti að draga til baka,“ skrifaði Nils Muiznieks, mannréttindastjóri Evrópuráðsins á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert