Mikil samstaða innan NATO

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), segir bandalagið standa þétt að baki aðildarríkinu Tyrklandi, en tilefni yfirlýsingarinnar er árás tyrkneska flughersins á rússneska orrustuþotu fyrr í dag. 

Um borð í rússnesku vélinni voru tveir flugmenn og skutu þeir sér út áður en vélin brotlenti innan landamæra Sýrlands. Annar mannanna var skotinn til bana í fallhlíf sinni á leið til jarðar. Óvíst er með afdrif hins flugmannsins.

„Líkt og við höfum ítrekað sagt - það er samstaða með Tyrkjum,“ sagði Stoltenberg eftir aukafund varnarbandalagsins en boðað var til hans með flýti í dag. Bætti Stoltenberg því við að Atlantshafsbandalagið styddi við rétt Tyrklands til að verja landamæri sín og lofthelgi.

Þá hvetur Stoltenberg ráðamenn í Ankara og Moskvu til að sýna stillingu í því máli sem nú er uppi.  

Yfirvöld í Ankara segja tvær tyrkneskar orrustuþotur af gerðinni F-16 hafa skotið niður rússnesku herþotuna, sem er af gerðinni Su-24, eftir að hún rauf lofthelgi Tyrklands. Eru Tyrkir áður sagðir hafa varað rússnesku flugmennina ítrekað við.

Rússnesk yfirvöld neita þessu hins vegar og segja vélina hafa verið í lofthelgi Sýrlands þegar skotið var á hana. Flugvélin brotlenti um fjórum kílómetrum frá landamærunum.

Fréttaveita AFP hefur það eftir ónafngreindum diplómata, sem sat fund NATO, að mikil samstaða væri með Tyrkjum. „Þetta var alvarlegt atvik og við viljum ekki að það hafi neikvæð áhrif á þá vinnu sem unnin hefur verið við myndun bandalags gegn Ríki íslams,“ sagði hann.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert