Svíþjóðardemókratar með 19,9%

Svíar hafa hert landamæraeftirlit til muna
Svíar hafa hert landamæraeftirlit til muna AFP

Svíþjóðardemókratar fengju 19,9% atkvæða yrði gengið til kosninga í Svíþjóð í dag, samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í gær. Flokkurinn, sem er öfga-þjóðernisflokkur, hefur aldri mælst með jafn mikið fylgi í skoðanakönnunum áður.

Tvisvar á ári gerir Hagstofa Svíþjóðar skoðanakönnun á fylgi flokka og er úrtakið yfir níu þúsund manns. Könnunin er sú stærsta sem gerð er þar í landi ár hvert. Fylgi Svíþjóðardemókrata hefur aukist um 5,5% frá síðustu könnun Hagstofunnar í maí og 7% frá kosningunum í september 2014.

„Ég held að það sé raunhæfur möguleiki að við verðum stærsti flokkurinn,“ segir ritari flokksins Richard Jomshof í viðtali við fréttastofuna TT í gær þegar könnunin var birt.

„Ég er sannfærður um að flokkurinn hefur hagnast á ástandinu sem hefur skapast undanfarna mánuði,“ segir hann og vísar þar til fjölda flóttafólks sem hefur komið til landsins.

Jomshof segir að flokkurinn hafi átt von á því að mælast stærri en í síðustu skoðanakönnun en aukningin sé meiri en vænst hafði verið.

Miklu fleiri karlar styðja Svíþjóðardemókrata en konur

Samkvæmt skoðanakönnuninni hefur fylgi flokka færst meira til hægri frá síðustu kosningum og mælist stuðningur við stjórnarandstöðuna 39% en stjórnarflokkana 33,5%. Tommy Möller, stjórnmálaskýrandi segir í samtali við TT að það ætti ekki að koma neinum á óvart að fylgi Svíþjóðardemókrata hafi aukist í kjölfar flóttamannastraumsins og hryðjuverkaógnar sem hafi ráðið ríkjum í pólitískri umræðu í haust og vetur. Hann bendir á að könnunin hafi verið gerð áður en ríkisstjórn Svíþjóðar herti reglur um komu flóttafólks í síðasta mánuði.

Flokkurinn sem missir mest af fylgi sínu til Svíþjóðardemókrata eru hægriflokkurinn Moderate, helsti stjórnarandstöðuflokkur landsins. 1,8% af fylgi Moderate fer yfir til Svíþjóðardemókrata. Jafnaðarmenn missa 0,6% af fylgi sínu til Svíþjóðardemókrata. Enn er mikill munur á milli kynja þegar þegar kemur af afstöðu fólks til Svíþjóðardemókrata en 15.4% kvenna styður flokkinn á meðan stuðningurinn mælist 24,3% meðal karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert