Verða Grikkir reknir úr Schengen?

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Evrópusambandið hefur varað Grikki við því að taki þeir ekki almennilega á flóttamannavandanum sem þeir glíma við fyrir miðjan desember standi þeir frammi fyrir því að verða reknir úr Schengen-samstarfinu. Þetta kemur fram í frétt viðskiptablaðsins Financial Times í gær og ennfremur að evrópskir ráðherrar og embættismenn sambandsins sjái hótun um brottrekstur sem örþrifaráð til þess að reyna að ýta á gríska ráðamenn í þessum efnum.

Verði hótunin framkvæmd verður það í fyrsta sinn sem ríki verður rekið úr Schengen-samstarfinu. Hótunin kemur í kjölfar yfirlýsinga forystumanna innan Evrópusambandsins um að herða þurfi eftirlit á ytri mörkum Schengen-svæðisins til þess að reyna að bjarga því. Evrópusambandið hyggst síðar í þessum mánuði leggja fram tillögu um að komið verði á fót sameiginlegri landamæralögreglu sem hefði vald til þess að taka yfir gæslu á ytri mörkum Schengen-svæðisins segir í fréttinni. Jafnvel gegn vilja ríkja á ytri mörkunum eins og Grikklands. Ísland er eitt þeirra Schengen-ríkja sem gætir ytri marka svæðisins.

Evrópusambandið hefur gagnrýnt grísk stjórnvöld harðlega fyrir að hafna aðstoð frá sambandinu við að styrkja gæslu landsins á ytri mörkum Schengen-svæðisins. Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins funda á næsta föstudag og er búist við að málið verði tekið til umræðu. Grikkir hafi ítrekað verið varaðir við brottrekstri í þessari viku. Þar á meðal í heimsókn Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemburg, til Grikklands en landið fer með forsætið innan Evrópusambandsins fram að áramótum.

mbl.is

Bloggað um fréttina