Hryðjuverkamenn handteknir fyrir íkveikju

Frá heimili fjölskyldunnar í Duma
Frá heimili fjölskyldunnar í Duma AFP

Ísraelsk yfirvöld greindu frá því í dag að nokkrir öfgasinnaðir gyðingar hafi verið handteknir vegna íkveikju á heimili palestínskrar fjölskyldu á Vesturbakkanum í júlí. Foreldrar og átján mánaða gamall sonur þeirra létust af völdum brunasára en fjögurra ára gamall drengur er sá eini í fjölskyldunni sem lifði árásina af.

Tilkynning stjórnvalda birtist í kjölfar aukins þrýstings um að árásarmennirnir yrðu látnir svara til saka fyrir morðin. Sérstök sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í málefnum Miðausturlanda lýsti yfir áhyggjum sínum í gær af því hversu rannsóknin á íkveikjunni gengi hægt.

Talsmaður lögreglunnar, Micky Rosenfeld, segir í samtali við AFP fréttastofuna að nokkrir hafi verið handteknir í tengslum við atvikið (íkveikjuna) sem átti sér stað í Duma.

Samkvæmt upplýsingum frá Shin Bet, innanríkisleyniþjónustu Ísraels, voru ungir karlar handteknir í tengslum við rannsóknina á undanförnum dögum. Mennirnir eru grunaðir um aðild að hryðjuverkasamtökum gyðinga og að hafa framið hryðjuverk.

Árásin í Duma var gerð 31. júlí og hefur seinagangurinn við rannsóknina vakið mikla reiði meðal Palestínumanna sem sumir segja það ástæðuna fyrir endurteknum ofbeldisverkum Palestínumanna gagnvart Ísraelum frá 1. október. Má þar nefna hnífaárásir, skotárásir og ákeyrslur. 

Frá því í byrjun október hafa 104 Palestínumenn verið drepnir, þar á meðal einn arabískur Ísraeli og sautján Ísraelar, Bandaríkjamaður og Erítreumaður. Margir þeirra Palestínumanna sem hafa verið drepnir hafa verið drepnir í kjölfar árása sem þeir hafa gert á Ísraela.

mbl.is