Danir kjósa um nánari tengsl við ESB

Lars Lokke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir að hafa kosið í …
Lars Lokke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir að hafa kosið í dag. AFP

Þjóðaratkvæði fer fram í dag í Danmörku um það hvort Danir falli frá undanþágu sinni frá þátttöku í samstarfi ríkja Evrópusambandsins á sviði lögreglu- og dómsmála sem þeir fengu fyrir rúmum tveimur áratugum síðan eftir að hafa hafnað Maastricht-sáttmála sambandsins.

Eftir að undanþágan var veitt ásamt þremur öðrum, meðal annars frá evrunni, samþykkti meirihluti danskra kjósenda sáttmálann. En síðan hafa danskir ráðamenn ítrekað lýst áhuga sínum á að gefa þær eftir. Kosið var um evruna í þjóðaratkvæði í Danmörku árið 2000 og var því hafnað að taka hana upp í stað dönsku krónunnar.

Mikil umræða hefur farið fram í Danmörku um málið og hafa innflytjendamál og hryðjuverkaárásirnar í París, höfuðborg Frakklands, sett mark sitt á hana undir það síðasta. Skoðanakannanir sýndu lengi vel stuðningsmenn þess að gefa undanþáguna eftir í afgerandi meirihluta síðustu daga virðast andstæðingar þess mælst í forystu. Mjótt er þó á mununum.

Lars Lokke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur hvatt kjósendur til þess að samþykkja að undanþágan verði gefin eftir enda snúist það um að veita lögreglunni og stjórnvöldum betri vopn í baráttunni gegn glæpum. „Ef við horfum til Parísar sjáum við að við verðum að vinna saman,“ sagði hann við blaðamenn í dag samkvæmt frétt AFP.

Fylgst er vel með þjóðaratkvæðinu víða um Evrópusambandið og ekki síst í Bretlandi þar sem fyrirhugað er þjóðaratkvæði um veru landsins í sambandinu. Margir telja að það kæmi sér illa fyrir David Cameron, forsætisráðherra Breta, ef Danir hafna því að gefa undanþáguna eftir þar sem það fæli í sér andóf gegn Evrópusambandinu en aðrir telja að það gæti rennt stoðum undir kröfu hans um breytingar á stofnunum sambandsins.

Kjörstaðir opnuðu klukkan átta í morgun að íslenskum tíma og mun loka klukkan 19:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert