Hæstaréttardómari sakaður um fordóma

Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington-borg.
Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington-borg. AFP

Ummæli eins níu dómara hæstaréttar Bandaríkjanna við flutning máls sem varðar lögmæti sértækra aðgerða til að auka hlutfall minnihlutahópa í háskólum hafa verið túlkuð sem kynþáttafordómar. Á dómaranum mátti skilja að blökkumenn ættu ekki erindi í bestu háskóla landsins.

Hæstiréttur hlýddi á málflutning í máli sem kona sem synjað var um pláss við Texas-háskóla höfðaði gegn skólanum. Töldu lögmenn hennar að sértækar aðgerðir (e. affirmative action) sem kveða á um forgang blökkumanna og rómanskra nemanda stangast á við stjórnarskrá.

Antonin Scalia, einn íhaldssamasti hæstaréttardómarinn, sagði að þeir væru til sem héldu því fram að það hjálpi ekki blökkumönnum að komast inn í Háskólann í Texas þar sem þeim vegni ekki vel frekar en að koma þeim í ekki eins þróaðan skóla, skóla með hægari yfirverð þar sem þeim vegni vel.

„Í einu af álitunum [fyrir dómnum] er bent á að flestir svörtu vísindamenn landsins komi ekki frá skólum eins og Háskólanum í Texas. Þeir koma frá skólum þar sem þeim líður ekki eins og það sé verið að ýta þeim áfram í kúrsum sem fara of hratt fyrir þá,“ sagði Scalia.

Þessum orðum hans hefur tekið sem alhæfingu um námsgetu blökkumana. Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings lýsti ummælum Scalia sem „rasisma“ á þingfundi í dag. Las hann ummælin upp í heild sinni og gagnrýndi dómarann harðlega.

„Þessar hugmyndir sem hann setti fram í gær eru rasískar í raun, ef ekki að yfirlögðu ráði. Ég veit ekki um ásetning hans en það er afar óhugnanlegt að heyra hæstaréttardómara styðja hugmyndir kynþáttahatara úr dómarasæti æðsta dómstóls landsins,“ sagði Reid.

Fyrri frétt mbl.is: Fjallar um sértækar aðgerðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert