Sameiginlegir langtímahagsmunir

Sérlegur sendifulltrúi Kína, Xie Zhenhua, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Al Gore, …
Sérlegur sendifulltrúi Kína, Xie Zhenhua, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Al Gore, og umhverfisráðherra Frakklands, Segolene Royal, stinga saman nefjum. Samkvæmt BBC bendir andrúmsloftið á fundi ráðamanna í París til þess að samkomulagið verði samþykkt án teljandi tafa, en það veltur m.a. á því hversu margir munu vilja stíga í pontu og láta ljós sitt skína á þessari sögulegu stundu. AFP

Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands á loftslagsráðstefnunni í París, segir allt útlit fyrir að gengið verði frá sögulegu samkomulagi um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í dag. Lokadrög að samkomulaginu eru nú til umfjöllunar hjá ráðamönnum en fundur þeirra hófst kl. 16.30 að íslenskum tíma.

Frétt mbl.is: Sögulegu samkomulagi landað í París?

En hvernig hefur gengið?

„Í raun ótrúlega vel miðað við fyrri tilraunir,“ segir Hugi. „Þá eru menn aðallega að miða við Kaupmannahöfn 2009 þegar líka átti að ná stóru almennu samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum en mistókst. En þetta hefur gengið ótrúlega vel, það hefur verið mjög góður andi; allt annar andi, og verið vel að þessu staðið. Og það bendir allt til þess að við séum að ná sögulegu samkomulagi rétt á eftir.“

Spurður um væntingar fyrir ráðstefnuna í París segir Hugi að flestir hefðu gert ráð fyrir því að menn myndu landa samkomulagi en að óvíst hefði verið um hversu metnaðarfullt það yrði. Á endanum varð niðurstaðan málamiðlun, eins og von var, þar sem stefnan er tekin á að halda hlýnun undir 2 gráðum en miðað að 1,5 gráðu.

Að sögn Huga var einnig óvíst hvort samkomulagið yrði í raun einfaldur rammi utan um þau markmið sem ríki heims hafa sett sér eða hvort kveðið yrði á um strangt aðhald. „Og okkur sýnist að [samkomulagið] sé nokkuð metnaðarfullt og muni hjálpa í þessari baráttu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu,“ segir hann.

Kona blaðar í gegnum samkomulagsdrögin.
Kona blaðar í gegnum samkomulagsdrögin. AFP

Deilt um ábyrgð og fjármögnun

Líkt og fram hefur komið snéru deilur að miklu leyti að ábyrgðarskiptingu.

„Það er mjög mikill munur á þróuðum ríkjum annars vegar og þróunarríkjunum hins vegar. Og kannski voru helstu deilurnar um það hvort það ætti bara að vera einföld skipting ríkja í þessa tvo flokka og mjög ólíkar skuldbindingar, eða hvort það ættu að vera fleiri stig í þessu þannig að það væri skýrt að þessir stærstu losendur þróunarríkjanna, og þau ríkustu þeirra á meðal, tækju á sig aukna ábyrgð. Og það sýnist okkur vera þarna inni.

En mikill hluti af svona viðræðum fer í að reyna að finna rétt jafnvægi og málamiðlun. Og endanlegur texti er málamiðlun milli sjónarmiða meðal þróðuðu ríkjanna, sem vilja fá þessi stóru ríki eins og Kína og Indland inn, og þeirra sem vilja að það sé nokkuð skýrt að ríku löndin, þróðuðu löndin, eigi að vera í fararbroddi og bera mestu ábyrgðina. Og þar á meðal varðandi fjármögnun til þróunarríkjanna. Það var eitt af stærstu deilumálunum,“ segir Hugi.

Bandaríkjamenn voru meðal þeirra sem vildu ekki að ákvörðun um fjármögnun væri bindandi og á lokametrunum var ákveðið að færa töluna 100 milljarðar á ári úr samkomulagstextanum í ákvörðun um framkvæmd samningsins.

„Samkomulagið er grunnur um aðgerðir í áratugi og mönnum fannst óeðlilegt að setja upphæðir þar inn,“ segir Hugi. Hann segir um lagatæknilegt atriði að ræða, en útfærslan geti skipt einstaka ríki máli þar sem fullgilda þarf samninginn en ekki ákvörðunina.

Utanríkisráðherra Frakka, Laurent Fabius, var klökkur þegar hann kynnti drög …
Utanríkisráðherra Frakka, Laurent Fabius, var klökkur þegar hann kynnti drög að samkomulagi fyrr í dag. Hér er hann ásamt Francois Hollande forseta. AFP

Hnattrænt vandamál

Það vekur athygli að samkomulaginu hefur verið fagnað af ólíkum aðilum með ólíka hagsmuni, t.d. ríkjum sem eru háð notkun eða framleiðslu jarðefnaeldsneytis annars vegar og umhverfissamtökum hins vegar.

Hvernig má það vera?

„Ég held að ástæðan fyrir því að þetta næst núna sé að menn eru allir orðnir sammála um að langtímahagsmunirnir séu þeir sömu, að það verði að grípa til sameiginlegra aðgerða, af því að þetta er hnattrænt vandamál,“ svarar Hugi.

„Menn eru sammála um langtímamarkmið. En svo auðvitað, eins og þú nefnir, eru skammtímahagsmunir ólíkir, og varðandi skiptingu byrða og hvað sé sanngjarnt og rétt í þeim efnum.. Það er þar sem hefur verið mikið mál að finna jafnvægi. Ástæðan fyrir því að þróunarríkin vilja vera með í þessu er að það er gert ráð fyrir miklum fjárhagsstuðningi til þeirra. Til að hjálpa þeim með græna tækni og aðlögun að þeim breytingum sem munu samt verða. Varðandi olíuríkin er líka ákvæði í samningnum um að það verði sett upp ferli til að taka tillit til þeirra ríkja sem munu þá mögulega þurfa að draga úr; þeim sem eru mjög háð sölu olíu eins og Sádi Arabía. Þannig að það fá allir eitthvað í samningnum og menn eru sammála um meginmarkmiðin.“

Frétt mbl.is: Blóð, sviti og tár

Það er vel þekkt að loftslagsráðstefnur SÞ dragist á langinn og reyni á. Hugi segir menn hins vegar sammála um að Frakkar hafi staðið sig frábærlega við stjórnun ráðstefnunnar í París.

„Þetta er búið að vera fínt, þannig séð. Það hafa verið tveir nætur-samningafundir en þetta hefur verið svo vel skipulagt hjá Frökkunum að menn hafa kannski getað skipulagt svefn sinn betur,“ segir hann um samanburðinn við fyrri ráðstefnur. „Það eru kannski ekki allir vel sofnir en það má segja að allt skipulag hjá Frökkum hafi verið til mikillar fyrirmyndar.“

Nokkur samtök boðuðu til fjöldafundar í París í dag. Á …
Nokkur samtök boðuðu til fjöldafundar í París í dag. Á myndinn má sjá hvernig þau hafa myndað textann +3° SOS. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert