Sögulegu samkomulagi landað í París?

Viðstaddir klöppuðu Laurent Fabius lof í lófa þegar hann tilkynnti …
Viðstaddir klöppuðu Laurent Fabius lof í lófa þegar hann tilkynnti að samkomulagi hefði verið náð í París í dag. AFP

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakka, tilkynnti að samningamenn 195 ríkja hefðu komist að samkomulagi um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á loftslagsráðstefnunni í París í dag.

Samkomulagið hefur verið afhent ráðherrahóp sem tekur ákvörðun um samþykkt.

Fabius var klökkur þegar hann ávarpaði ráðherrana og sagði að samþykkt þeirra myndi marka söguleg þáttaskil fyrir heimsbyggðina. Vonir standa til þess að með henni verði bundin endir á langvarandi deilur ríkari og fátækari ríkja um hvernig aðgerðirnar verða fjármagnaðar.

Leiðtogar og vísindamenn hafa varað við því að samkomulag um aðgerðir skipti sköpum, til að takmarka hlýnun og forða mannkyninu frá hörmulegustu afleiðingum loftslagsbreytinga. Hins vegar er ljóst að bylting á sviðið endurnýjanlegrar orku verður að eiga sér stað.

Að sögn Fabius gerir samkomulagið ráð fyrir „gólfi“ hvað varðar fjármögnun, þ.e. að a.m.k. 100 milljörðum Bandaríkjadala verði varið í að aðstoða þróunarlöndin á ári hverju frá 2020.

Þá hefur sú stefna verið mörkuð að freista þess að halda hlýnun undir 2 gráðum og miða að því að takmarka hana við 1,5 gráður, sem þykir afar metnaðarfullt markmið.

Ráðstefnugestir kynna sér drög að samkomulaginu.
Ráðstefnugestir kynna sér drög að samkomulaginu. AFP

Francois Hollande Frakklandsforseti og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sátu á sviðinu með Fabius þegar hann kynnti samkomulagið. Ráðherrann biðlaði til ráðherrahópsins um að samþykkja það.

Samningamenn, sem hafa vakið dag og nótt við að útkljá deilumál, risu tvívegis á fætur og hrópuðu og klöppuðu.

„Þið hafið tækifæri til þess að breyta heiminum,“ sagði Hollande. „Þið verðið að taka síðasta skrefið, úrslitaskrefið sem gerir okkur kleift að ná markmiðum okkar.“

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, jók enn á bjartsýni viðstaddra þegar hann sagði að stjórnvöld vestanhafs væru afar sátt með niðurstöðuna. „Þetta ætti að verða gott, en við sjáum hvað setur. Það getur eitthvað útaf brugðið en við teljum að þetta sé í höfn.“

Fabius á skrifstofu sinni. Hann hefur staðið í ströngu við …
Fabius á skrifstofu sinni. Hann hefur staðið í ströngu við að halda viðræðum gangandi og á tíma. AFP

Þeir sem losuðu mest gegn þeim sem munu losa mest

Ríkari þjóðir annars vegar og fátækari þjóðir hins vegar hafa lengi deilt um hversu miklar birðar hvor á að axla. Hvers konar samkomulag hlaut að fela í sér að draga úr eða hætta notkun jarðefnaeldsneyta, sem hafa knúið vegferð ríkja í átt til velmegunar allt frá iðnbyltingunni.

Brennsla jarðefnaeldsneytis hefur í för með sér losun gróðurhúsaloftegunda, sem veldur hlýnun og öðrum loftslagsbreytingum. Til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar þarf því að umbylta allri orkuframleiðslu og skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Þróunarríkin hafa lagt áherslu á að þróuðu ríkin axli ábyrgð á þeirri miklu losun sem þau hafa staðið fyrir, en þau hafa aftur bent á að fátækari ríkin standi fyrir mestri losun í dag og að frekari hlýnun verði að stórum hluta af þeirra völdum.

Á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009 lofuðu efnaðri þjóðirnar að leggja fram 100 milljarða á ári til að aðstoða efnaminni ríkin við að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Hvernig þeirri fjármögnun yrði háttað var hins vegar óljóst þegar fundur hófst í París. Bandaríkjamenn fóru fram á að skilyrði um fjármögnun yrðu ekki lagalega bindandi og ekki liggur fyrir hvernig þetta hefur verið útfært í samkomulaginu, þar sem því hefur ekki verið dreift.

Aðgerðasinnar klæddir sem ísbirnir á fjöldafundi í París.
Aðgerðasinnar klæddir sem ísbirnir á fjöldafundi í París. AFP

Hvað varðar aðrar aðgerðir höfðu flestar þjóðir lagt fram heit um að draga úr losun frá 2020, en samkvæmt vísindamönnum nægja þau ekki til að halda hlýnun undir hættumörkum.

Þær þjóðir sem þykja hvað berskjaldaðastar gegn loftslagsbreytingum börðust fyrir því að miðað yrði að því að halda hlýnun undir 1,5 gráðum en önnur ríki, sem eru verulega háð jarðefnaeldsneytum, t.d. Kína, Indland og olíuframleiðsluríkið Sádi Arabía, vildu miða að 2 gráðum.

Nú er það undir ráðherrum ríkjanna komið hvort samkomulagið verður samþykkt, en gera má ráð fyrir að meðal atriða sem enn gætu tekið breytingum séu útfærsluatriði varðandi endurskoðun og umbætur á aðgerðum einstakra ríkja á samkomulagstímabilinu.

Það er ekkert plan B, stendur á Eiffel-turninum.
Það er ekkert plan B, stendur á Eiffel-turninum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert